Kristinn Haukur Guðnason
Föstudagur 13. ágúst 2021
23.00 GMT

Páll Magnússon kveður Alþingi eftir fimm ára dvöl og segist sáttur við sitt framlag. Sjálfstæðisflokkurinn eigi hins vegar við vanda að stríða. Páll ræðir stjórnmálin á landi og í Eyjum, baráttuna við áfengi, arfleifð föður síns og hvernig hann kemst í tengsl við almættið.

Eftir að ég tók þá ákvörðun að hætta á þingi líður mér sífellt betur með hana. Áhuginn hefur að miklu leyti dofnað og neistinn kulnað,“ segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á þessum tímamótum.

Ákvörðunin um framboð, fyrir rúmum fimm árum, var nokkuð brött. Þá lá á borði Páls tilboð um spennandi fjölmiðlastarf sem hann ætlaði að taka. Á síðustu stundu, örfáum klukkustundum áður en framboðsfresturinn í prófkjörinu rann út, snerist honum hugur og vann að lokum oddvitasætið í Suðurkjördæmi.

„Þegar fór að líða að prófkjörinu núna í maí fann ég að sú ögrun sem var upphaflega fyrir hendi var farin,“ segir Páll. Margir litlir hlutir hafi komið saman og þetta var niður­staðan. „Það væri of djúpt í árina tekið að segja að þingmannsstarfið hafi valdið vonbrigðum, því margt fannst mér skemmtilegt og ýmislegt gat ég lagt til málanna. Ég hætti ekki í neinni biturð heldur kveð ég þingið nokkuð sáttur.“

Flokkurinn í tilvistarkreppu

Fyrr í sumar skrifaði Páll grein, sem birt var í Morgunblaðinu, um stöðu Sjálfstæðisflokksins og þann vanda sem hann standi frammi fyrir. Greiningu á því hvers vegna flokkurinn hafi verið fastur í fylgi í kringum 25 prósentin frá hruni.

Samkvæmt Páli skýrist þetta að stórum hluta af afstöðuleysi. Það er að flokkurinn þori hvorki að vera frjálslyndur né íhaldssamur, af ótta við að missa fólk yfir til Viðreisnar og Miðflokksins, sem séu þeir flokkar sem tekið hafa af honum fylgi. Þá sé forysta flokksins ekki kölluð til ábyrgðar gagnvart fylgismissinum og engin raunveruleg umræða innan flokksins um hann, heldur aðeins tuð og pískur í þröngum hópum. Að lokum hafi það ekki tekist að hrista af sér grunsemdir um hagsmunaárekstur.

„Stundum finnst mér að Sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn nokkurs konar framkvæmdastjóri Íslands. Hann hefur verið lengi í ríkisstjórn og formaðurinn lengi í fjármálaráðuneytinu,“ segir Páll. Þetta orsaki það að hugsjónir og raunveruleg stjórnmál víki fyrir skriffinnsku og embættisræði.

„Árið 1929 runnu Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn saman í Sjálfstæðisflokkinn og flestar götur síðan bar hann gæfu til að vera breiðfylking borgaralegra afla,“ segir Páll. „Nú hefur brotnað úr flokknum í báða enda og flokkurinn er í dálítilli tilvistarkreppu.“

Þegar Páll er beðinn að staðsetja sjálfan sig á ásnum segist hann vera helst til íhaldsmegin. Það myndu að minnsta kosti flestir samflokksmenn hans segja. „Þegar kemur að menningarlegum og þjóðlegum gildum er ég íhaldsmaður,“ segir hann og nefnir frumvarp dómsmálaráðherra um mannanöfn og afnám mannanafnanefndar sem lítið dæmi. „Ég tel íslenska nafnahefð órjúfanlegan hluta af íslenskri málstefnu, tungu og sögu og engin ástæða til að höggva á þá tengingu og gefa mannanöfn algerlega frjáls.“

Hollusta verði ekki meðvirkni

Aðspurður segir Páll atvinnumálin hafa skipt hann mestu og þá einkum sjávarútvegurinn. Lengi hafi verið ósætti um fiskveiðistjórnunarkerfið, sem sé ekki hjálplegt. Sjálfur lagði hann fram frumvarp í vetur sem átti að stemma stigu við of mikilli samþjöppun á eignarhaldinu.

„Mér finnst að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að taka frumkvæðið í að laga agnúa á fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem í grundvallaratriðum er gott“ segir Páll. Hingað til hafi flokkurinn staðið vörð um óbreytt kerfi, sem sé ekki til þess að minnka grunsemdirnar um hagsmunaárekstur. Sérstaklega ekki þegar sjávarútvegsráðherra hafi sterk tengsl við stærstu útgerðina.

„Þegar kemur að grundvallar­atvinnuvegi þjóðarinnar á Sjálfstæðisflokkurinn ekki að sitja hjá aðgerðalaus,“ segir Páll.

SAXoPicture-0A44A7D8-820860291.jpg

Grein Páls hristi upp í flokknum og sumir töldu að svona ætti ekki að segja upphátt.

Páll bendir á að samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup sé flokkurinn á sama stað og hann var í kosningunum eftir hrunið, sínu lægsta fylgi í sögunni. Flokksmenn hafi þá trúað að leiðin gæti ekki legið nema upp á við. Það hafi hins vegar ekki gerst, þrátt fyrir mikla uppgangstíma í efnahags- og atvinnumálum fram að faraldrinum.

„Í Sjálfstæðisflokknum hefur skapast andrými fyrir þá skoðun að þú sért að bregðast flokknum með því að gagnrýna forystuna,“ segir Páll. „Ég vil hins vegar meina að þú sért að bregðast með því að gera það ekki þegar þörf er á, eins og nú er.“

Páll segist ekkert endilega vera á þeirri skoðun að forysta flokksins eigi að víkja en umræðan væri lífblóð flokksins. „Hollusta við formann má ekki breytast í meðvirkni, því þá er hún skaðleg,“ segir hann. „Sjálfstæðismenn hljóta að ræða hvort það sé fullreynt að ná árangri með núverandi formanni og forystu.“

Viðbrögðin við greininni létu ekki á sér standa og Páll segir flesta sem höfðu samband hafa verið sammála. Sumir hafi þó verið ósáttir við birtinguna, jafnvel þó að þeir væru sammála efninu. Fæstir hafi verið ósammála því.

Þó Páll hafi hrist upp í Sjálfstæðisflokknum á sinni útleið af þingi segist hann ekki hættur í flokknum. Það geti vel komið til greina að bjóða kraftana fram á öðru stigi stjórnmálanna ef svo bæri undir. Páll jánkar því að rætt hafi verið við sig um sveitarstjórnarkosningarnar, sem fram fara næsta vor. „Já, já, það er ýmislegt skrafað og skeggrætt en ég er ekkert að pæla í því núna.“

Meirihlutinn féll fyrir eigin hendi

Róstusamt hefur verið í Sjálfstæðisflokknum í Eyjum undanfarin ár og var Páll dreginn inn í þær deilur. Rótin að þessu voru deilur um hvort halda ætti prófkjör fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2018, sem lauk með því að stór hluti flokksmanna fylkti sér á bak við listann Fyrir Heimaey, með Írisi Róbertsdóttur í fararbroddi. Páll var sakaður um að styðja ekki við D-listann í kosningunum og var að lokum vikið úr fulltrúaráðinu í Vestmannaeyjum.

„Fyrir mér snerist þetta um prinsipp,“ segir Páll og rifjar upp að tillaga um uppstillingu hafi verið felld á fundi fulltrúaráðs, í ljósi þess að margir flokksmenn hafi viljað prófkjör, sem hafi alltaf verið meginreglan hjá flokknum. Allir sem af þeim fundi gengu hafi því verið fullvissir um að prófkjör væri þar með ákveðið.

Þá hafi allt í einu verið boðað til annars fundar til að snúa þeirri niðurstöðu við. Á þeim fundi var sérstaklega borin upp tillaga um prófkjör sem var felld með 28 atkvæðum gegn 26. „Þetta tel ég vera brot á efni og anda skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins. Í þeim segir skýrt að til þess að taka ákvörðun um annað en prófkjör þarf tvo þriðju hluta atkvæða.“

Niðurstaðan var ekki kærð heldur klofnaði flokkurinn og Páll ákvað að styðja hvorugt framboðið. Hans ábyrgð væri að lágmarka skaðann af þessum klofningi í þingkosningunum en ekki skipta sér af innanbúðardeilum í Eyjum. Hins vegar gátu ekki allir fellt sig við þetta og töldu Pál svíkja lit með því að styðja ekki við D-listann.

„Þægilegast fyrir mig hefði verið að fylgja línu þeirra sem réðu ferðinni í flokknum í Vestmannaeyjum og vera ekki að gera mér neina rellu út af þessu,“ segir Páll. „En sannfæring mín var sú að farið hefði verið á svig við þessa meginreglu Sjálfstæðismanna og ég myndi taka þessa ákvörðun aftur, vitandi að þetta myndi baka mér alls konar óþægindi.“

Í kosningunum missti Sjálfstæðisflokkurinn einn stærsta meirihluta í íslenskum stjórnmálum, fór úr 73 prósentum niður í 45. Í kjölfarið myndaði Fyrir Heimaey, sem fékk 34 prósent, meirihluta með Eyjalistanum.

„Meirihlutinn féll fyrir eigin hendi og á þessum þremur árum hef ég því miður ekki séð nein merki þess að þessar fylkingar sameinist,“ segir Páll og játar því að enn ríki kergja hvað hann sjálfan varðar í þessu máli. „Lítil samfélög eins og Vestmannaeyjar eru ákaflega samheldin, til dæmis þegar áföll ríða yfir, en hin hliðin á peningnum er sú að deilur í stjórnmálum og annars staðar geta orðið mjög persónulegar. Nándin er svo mikil.“

Gliðnunarmerki fyrir faraldur

Ólíkt tveimur fyrri ríkisstjórnum hefur núverandi stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna haldið út heilt kjörtímabil. Páll segist hafa stutt þessa stjórn en gert sér grein fyrir að hún myndi hvorki lækka skatta né draga úr opinberum umsvifum. Festa var sett í forgang því hinn pólitíski óstöðugleiki hafi verið orðinn að sjálfstæðu efnahagslegu vandamáli.

„Í meginatriðum hafa þær vonir sem bundnar voru við ríkisstjórnina ræst,“ segir Páll. „En það voru komin ýmis gliðnunarmerki í stjórnina rétt áður en faraldurinn skall á.“ Einkum hafi Sjálfstæðismenn verið ósáttir við andstöðuna við einkarekstur í heilbrigðismálum og Vinstri græn verið ósátt við að frumvarp um miðhálendisþjóðgarð væri fast. Líkt og landhelgisstríðin forðum hafi faraldurinn hins vegar þjappað stjórnarliðum saman.

Páll Magnússon Palli Magg 03.jpg

Páll segir faraldurinn hafa þétt raðir stjórnarliða eins og landhelgisstríðin forðum.

Framhald stjórnarinnar, fái flokkarnir til þess fylgi, ráðist hins vegar af Vinstri grænum, sem séu stóra spurningarmerkið í kosningunum. Helmingur kjósendahópsins ætli ekki að kjósa þá aftur en fylgið hefur hins vegar aðeins dalað um 3 prósent. Virðist því sem flokkurinn hafi að stórum hluta skipt um fylgjendur.

En þó Páll hafi stutt núverandi ríkisstjórn taldi hann sig, og kjósendur sína í Suðurkjördæmi, hlunnfarna, þegar kom að útdeilingu ráðherrastóla. Sérstaklega árið 2016 þegar hann vann bæði sitjandi ráðherra í prófkjöri og flokkurinn hlaut rúmlega 31 prósent í kjördæminu. Þessa skoðun fór Páll ekki leynt með.

„Já, ég var hissa,“ segir hann aðspurður um það að hafa ekki verið boðið ráðuneyti. „Á þessum fimm árum áttaði ég mig hins vegar á því að ég hefði ekkert þurft að verða svona hissa. Ég kom utan frá í pólitíkina án þess að eiga mér neitt bakland eða sögu í flokknum. Það getur verið býsna torsótt inni í Sjálfstæðisflokknum. Þegar kemur að ráðuneytum skiptir það ekki endilega mestu máli að hafa sem sterkast lýðræðislegt umboð, heldur ráða aðrir þættir meiru um það.“

Tuttugu ár án áfengis

Þann 25. júlí fagnaði Páll því að tuttugu ár voru frá því að hann lagði flöskuna á hilluna. Hann segir það hafa komið flatt upp á marga vini og kunningja, sem hafi kannski ekki vitað hversu miklum vandræðum áfengið var farið að valda honum.

„Viðskiptajöfnuðurinn var orðinn mjög óhagstæður því að leiðindin og armæðan sem fylgdu þessu yfirskyggðu gleðina og hressleikann,“ segir hann.

Páll segir áfengið hafa verið farið að taka ákveðinn toll, ekki síst í fjölskyldulífinu. „Ég var fyrir löngu búinn að átta mig á því að áfengi væri vandamál sem ég þyrfti að gera eitthvað í. En það tók mig um tíu ár að sjá að ég myndi ekki ná árangri án hjálpar.“ Þessa hjálp fékk Páll á meðferðarstöð í Bandaríkjunum og síðan hefur hann haldið sér við með því að sækja AA-fundi og hafa augun á boltanum.

„Þegar ég var að kveðja meðferðarráðgjafann á leið út á flugvöll spurði ég hann hvernig hann byggist við að mér myndi ganga. Hann sagðist ekki búast við góðum árangri,“ segir Páll og hlær. „Ég væri þannig karakter að ef ég myndi ekki sýna edrúmennskunni áhuga og viðhalda óttanum við að fara aftur í sömu spor, yrði ég fljótur að falla.“

Páli brá nokkuð að heyra þetta en hefur síðan passað upp á að verða ekki værukær og viðhalda bæði áhuganum og hræðslunni. Engin leið sé betri til þess en að hlusta á reynslusögur fólks sem hefur fallið.

Aðspurður um hvers vegna hann hafi farið til Bandaríkjanna til að sækja sér meðferð segir Páll það hafa stafað af einhvers konar hégóma og skömm. Í dag sé meiri skilningur á áfengisvanda í samfélaginu.

„Mér fannst vera tormerki á að fara í meðferð hér á Íslandi því hér myndu allir frétta af því vegna þess að ég væri þekktur,“ segir hann. Var Páli því eindregið ráðlagt að fara erlendis fremur en að fara ekki. „Þetta var fyrirtaks meðferð en það var í raun ástæðulaust að fara erlendis. Í dag myndi ég sækja mér hjálp á Íslandi þar sem hún er mjög góð.“

Arfleifð pabba

Páll á heimili bæði í Garðabæ og í Vestmannaeyjum, þar sem faðir hans, Magnús H. Magnússon, var bæjarstjóri. Í febrúar sá Páll æskuheimili sitt, við Vestmannabraut 22, rifið til grunna. Páll segir það hafa vakið upp tilfinningar innra með sér, þó að byggingin sjálf hafi verið að hruni komin og ekki til mikillar prýði í miðbænum. Páll fékk þó að eiga húsnúmerið og segist geta ornað nostalgíunni með því.

Magnús var bæjarstjóri þegar gosið hófst, 23. janúar árið 1973. Páll var þá 18 ára gamall, nemandi í Kennaraháskólanum og leigði íbúð í Kópavoginum með félaga sínum.

„Ég fór að sofa en hann fór á djammið þetta kvöld. Þegar hann kom heim um nóttina, nokkuð við skál, gargaði hann í gegnum hurðina hjá mér að það væri byrjað að gjósa í Eyjum. Ég trúði honum ekki fyrr en hann náði í útvarpið og restin af nóttinni fór í að finna fjölskylduna mína. Ég fann mömmu og systkini mín í Austurbæjarskólanum í hádeginu daginn eftir en pabbi fór ekkert í land,“ segir Páll. Sjálfur vann Páll um sumarið við að moka vikri úr kirkjugarðinum.

Páll Magnússon Palli Magg 02.jpg

Magnús H. Magnússon, faðir Páls var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum þegar gosið hófst.

Aðeins eldra fólk man hvílíkar hamfarir gosið í Heimaey var og erfitt að ímynda sér hvernig það hafi verið fyrir bæjarstjóra að sjá bæinn fara undir hraun og ösku og alla íbúana flutta upp á land. Magnús hlaut fálkaorðuna þetta ár, ásamt fleirum sem komu að björgunaraðgerðunum. Páll segir þær þó ekki hafa verið erfiðasta verkefnið.

„Þegar frá leið varð aðalhlutverk pabba heitins að sannfæra fólk um að koma aftur eftir þessa hroðalegu upplifun. Sannfæra fólk um að það væri framtíð í Eyjum og fólk ætti að byggja önnur hús í stað þeirra sem fóru undir hraunið,“ segir Páll. „Að það hafi tekist að veita fólkinu kjark til þess, finnst mér vera mikilvægasti hluti hans arfleifðar.“

Alltaf Eyjamaður

„Að vera Eyjamaður er mjög stór hluti af sjálfsmyndinni,“ segir Páll. „Miklu stærri en að vera fjölmiðlamaður eða stjórnmálamaður. Ég áttaði mig einna helst á þessu þegar ég fór til að tæma skrifstofuna mína á Alþingi. Þar var ég ekki með neitt persónulegt sem ég þurfti að taka með mér. Það sama átti við þegar ég var að hætta sem útvarpsstjóri. Ég gat bara gengið út.“

Páll varar við því að fólk geri starfsgrein sína að órjúfanlegum hluta sjálfsmyndarinnar. Það geti verið sárt þegar fólk hætti að vinna af einhverjum orsökum. „Ég sá marga vini mína til dæmis í flugstéttunum algerlega niðurbrotna við að missa vinnuna í faraldrinum. Því þeir voru að missa hluta af sjálfsmyndinni líka. Ég verð alltaf fyrst og fremst Eyjamaður, það er miklu eðlilegri hluti af sjálfsmyndinni en starfið sem maður gegnir á hverjum tíma.“

Í samband við almættið

Páll mun stýra þáttunum Pólitík með Páli Magnússyni á sjónvarpsstöðinni Hringbraut fram að kosningum í lok september. En framhaldið er algerlega opið að hans sögn. Páll er nú orðinn 67 ára gamall, á fjögur börn úr tveimur hjónaböndum og barnabörnin eru orðin sjö, og komið eitt langafabarn að auki.

Þegar hann lítur til baka yfir langan feril í fjölmiðlum segir hann alltaf hafa verið skemmtilegast að starfa sem almennur blaðamaður. „Þú mættir í vinnu að morgni og vissir ekkert hvað dagurinn bar í skauti sér. Gast endað niður í þingi eða uppi í óbyggðum í miðjum náttúruhamförum,“ segir hann. „Eftir því sem maður komst hærra í goggunarröðinni jókst argaþrasið og leiðindastigið.“

Einfaldleikinn á vel við Pál sem kemur kannski best í ljós í Eyjum. Þar á hann lítinn skemmtibát með vinum sínum. Páll segir sjóferðirnar dýrmæta afslöppun.

„Ég fer oft einn út og leita að hvölum, sérstaklega háhyrningum,“ segir hann. „Stundum sé ég að þeir hafa fundið síldartorfu og súlurnar stinga sér að ofan. Ég fer þá eins nálægt og ég get, drep á mótornum og stari á þetta sjónarspil. Þá finnst mér eins og ég hafi verið tekinn úr sambandi við gráan hversdagsleikann og stungið í samband við almættið.“

Athugasemdir