Birgir Bárðarson, framkvæmdarstjóri Laugardalshallar segir það handvöm hjá forsvarsmönnum ReyCup að hafa ekki óskað eftir því að eftirlitsmyndavélar, sem voru í gangi í svefnsal fótboltakrakka í höllinni,yrðu teknar úr sambandi.

Eins og Fréttablaðið greindi frá stuttu fyrir hádegi, áttuðu fótboltastúlkur, sem taka þátt í ReyCup, sig sjálfar á því í gærkvöldi að eftirlitsmyndavélar í svefnsal þeirra í laugardalshöll voru í gangi. Þær höfðu oft verið fáklæddaar og jafnvel naktar í rýminu og voru eðlilega ósáttar við að vera á upptöku.

Birgir segir að Gunnhildur Ásmundsdóttir framkvæmdarstjóri mótsins hafi gert sér viðvart um málið í morgun.

„Ég bendi nú á að Laugardalshöll er fjölnotahús og ekki ætlað sem gistirými,“ segir hann. Það sé alltaf kveikt á myndavélunum.

„Við notum ekki þessar myndavélar í annað en að ná yfirsýn á hvar húsið er og hvernig það liggur. Hvort það sé fólk í einhverjum rýmum eða ekki. Starfsmenn sitja ekki og horfa á þessar myndavélar allan daginn og það hefur enginn aðgengi að þessum myndavélum, nema starfsmenn í deskinu og svo bara ég,“ segir Birgir.

Hann leggur áherslu á að ekki sé um faldar myndavélar að ræða.

„Þessar myndavélar eru ekki faldar. Það er öllum ljóst að það eru myndavélar í húsinu.“

„Þessar myndavélar eru ekki faldar, það er öllum ljóst að það eru myndavélar í húsinu,“ segir hann.

Heldurðu að börnunum hafi líka verið það ljóst?

„Ég veit það ekki. Ég er ekki á staðnum og veit ekki hvað forsvarsmenn ReyCup hafa gert,“ segir Birgir.

Hann segir að ekki hafi verið óskað eftir því að vélarnar yrðu teknar úr sambandi.

„Ja, það var ekki talað um það sérstaklega að það þyrfti að slökkva á þeim. Ef slökkva hefði átt á þeim þá hefði þurft að hafa samband við mig og það var ekki gert. Ég tel að það hafi verið handvöm hjá einhverjum sem átti að sinna því hlutverki að óska eftir að taka þær úr sambandi.“

Aðspurður segist Birgir ekki vita hvort eitthvert framhald verði á málinu. Enginn hafi rætt frekar við hann, utan samtal hans við Gunnhildi í morgun.