Ríkis­stjórn Mark Rutte í Hollandi hefur sagt af sér vegna hneykslis­máls. Þúsundir barna­fjöl­skyldna voru krafðar um endur­greiðslu á barna­bótum og sakaðar um skatt­svik sem reyndist ekki eiga sér neina stoð. Fjöl­skyldur inn­flytj­enda urðu einkum fyrir barðinu á skatt­yfir­völdum og margar fjöl­skyldur lentu í miklum fjár­hags­vand­ræðum vegna þessa.

Fyrir skömmu kom út skýrsla þing­manna um málið þar sem tekið var hart til orða um fram­göngu skattsins og henni lýst sem „ó­rétt­læti án hlið­stæðu.“ Fjöl­skyldurnar sem sakaðar voru um skatt­svik fengu ekki að á­frýja niður­stöðunni og í ein­hverjum til­fellum fór svo að hjón skildu sökum þeirra fjár­hags­legum byrðar sem lögð var á þau.

Af þessum sökum af­henti Rutte Hollands­konungi af­sagnar­bréf stjórnar sinnar. Í sam­tali við blaða­menn eftir fund með konungi sagði Rutte að „sak­laust fólk hefði verið vænt um glæp­sam­lega hegðun og líf þeirra eyði­lagt. Á­byrgðin er okkar.“ Hann hafnaði því að af­sögnin væri einungis tákn­ræn.

Starfar fram að þingkosningum

Á­­kvörðun stjórnarinnar var ein­róma en áður hafði Rutte sagt að hann teldi af­­sögn ekki ráð­­lega þar sem mikil­­vægt væri að stöðug­­leiki ríkti í stjórn­­málum meðan glímt væri við CO­VID-19 far­aldurinn. Ríkis­­stjórnin mun starfa á­­fram fram að kosningum sem fara fram í mars.

Þó hefur fjár­­mála­ráð­herrann Eric Wiebes sagt af sér em­bætti strax og í gær sagði Lodewijk Asscher for­­maður Jafnaðar­manna­­flokksins af sér. Hann gegndi em­bætti fé­lags­mála­ráð­herra og vara­for­sætis­ráð­herra frá 2012 til 2017.

Lodewijk Asscher fyrrverandi formaður hollenska Verkamannaflokksins.
Fréttablaðið/EPA