Ríkisstjórn Mark Rutte í Hollandi hefur sagt af sér vegna hneykslismáls. Þúsundir barnafjölskyldna voru krafðar um endurgreiðslu á barnabótum og sakaðar um skattsvik sem reyndist ekki eiga sér neina stoð. Fjölskyldur innflytjenda urðu einkum fyrir barðinu á skattyfirvöldum og margar fjölskyldur lentu í miklum fjárhagsvandræðum vegna þessa.
Fyrir skömmu kom út skýrsla þingmanna um málið þar sem tekið var hart til orða um framgöngu skattsins og henni lýst sem „óréttlæti án hliðstæðu.“ Fjölskyldurnar sem sakaðar voru um skattsvik fengu ekki að áfrýja niðurstöðunni og í einhverjum tilfellum fór svo að hjón skildu sökum þeirra fjárhagslegum byrðar sem lögð var á þau.
Ábyrgðin er okkar.
Af þessum sökum afhenti Rutte Hollandskonungi afsagnarbréf stjórnar sinnar. Í samtali við blaðamenn eftir fund með konungi sagði Rutte að „saklaust fólk hefði verið vænt um glæpsamlega hegðun og líf þeirra eyðilagt. Ábyrgðin er okkar.“ Hann hafnaði því að afsögnin væri einungis táknræn.
Starfar fram að þingkosningum
Ákvörðun stjórnarinnar var einróma en áður hafði Rutte sagt að hann teldi afsögn ekki ráðlega þar sem mikilvægt væri að stöðugleiki ríkti í stjórnmálum meðan glímt væri við COVID-19 faraldurinn. Ríkisstjórnin mun starfa áfram fram að kosningum sem fara fram í mars.
Þó hefur fjármálaráðherrann Eric Wiebes sagt af sér embætti strax og í gær sagði Lodewijk Asscher formaður Jafnaðarmannaflokksins af sér. Hann gegndi embætti félagsmálaráðherra og varaforsætisráðherra frá 2012 til 2017.
