Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur dæmt hollenska ríkið til að greiða skaðabætur fyrir fjöldamorð á nýlendutímanum. Ættingjar 11 manna sem teknir voru af lífi í frelsisstríði Indónesíu á fimmta áratugnum munu hljóta bætur.

Hollenska ríkið hafði óskað eftir að kröfurnar yrðu felldar niður vegna þess tíma sem liðinn er síðan brotin voru framin.

Málin snerust um menn sem drepnir voru af hermönnum í indónesíska héraðinu Suður-Sulawesi í svokölluðum „hreinsunaraðgerðum“ Hollendinga. Að minnsta kosti 860 menn voru teknir af lífi á árunum 1946 og 1947 í Sulawesi, og hafa fleiri indónesískar fjölskyldur sóst eftir bótum vegna þeirra.

Einn bótaþega var Andi Monji, 83 ára, sem ferðaðist til Hollands til að segja sögu sína en hann var aðeins tíu ára gamall þegar hann var neyddur til að fylgjast með aftöku föður síns eftir að hafa verið laminn illilega. Monji þakkaði dómstólnum fyrir niðurstöðuna.

Í úrskurði dómsins kemur fram að upphæðirnar sem veittar verði bæti ekki þann sársauka og sorg sem aftökur mannanna hafi valdið fjölskyldum þeirra.