Neðri deild hollenska þingsins kaus með miklum meirihluta á þriðjudaginn ályktun þess efnis að ríkisstjórn Hollands yrði hvött til að beita framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þrýstingi svo að innflutningur og framleiðsla á hormóninu PMSG (e. Pregnant Mare Serum Gonadotropin), sem fengið er úr fylfullum hryssum með blóðtöku, verði bannaður.

„Kallað er eftir því að ríkisstjórnin hvetji framkvæmdastjórn ESB til að innleiða kröfur um dýravelferð við lyfjaframleiðslu fyrir tilskilinn lokadag 29. janúar 2025, og hvetji til þess að þessar kröfur verði nógu strangar til þess að stöðva innflutning og framleiðslu á PMSG,“ stendur í ályktuninni.

Frelsis- og lýðræðisflokkurinn, flokkur Mark Rutte forsætisráðherra, kaus á móti ályktuninni.

„PMSG er hræðilegt lyf,“ sagði Frank Wassenberg, þingmaður hollenska Dýraflokksins, sem lagði fram tillöguna. „Til þess að framleiða það eru hryssur gerðar fylfullar aftur og aftur svo þær framleiði frjósemishormón, og síðan er blóð dregið úr þeim í miklu magni. Oft er meðgangan rofin til þess að hraða framleiðsluferlinu. Þessi iðkun er algjörlega óviðunandi. Með þessu frumvarpi hefur neðri deild þingsins gert það ljóst að hollenska stjórnin verður að stöðva framleiðslu og innflutning PMSG eins fljótt og auðið er.“

Í Holland er PMSG notað sem frjósemislyf við ræktun á svínum, kúm, sauðfé, kanínum og hestum. Myndbönd af máttfara blóðmerum á Íslandi og í Suður-Ameríku hafa vakið mikla athygli þar í landi og hafa stuðlað að hreyfingum til að hætta notkun þessara frjósemislyfja.

Evrópuþingið hefur einnig stutt áætlanir um að láta banna PMSG og samþykkti ályktun þess efnis í október síðastliðinn. „Það að ræna fylfullar hryssur blóði sínu til að frjóvga svín fljótar við kjötframleiðslu getur ekki og ætti ekki að vera hluti af matvælakerfinu okkar,“ sagði hollenska Evrópuþingkonan Anja Hazekamp, sem einnig er í Dýraflokknum og situr á Evrópuþinginu fyrir Norrænu vinstri-grænu hreyfinguna. „Það er uppörvandi að sjá að á eftir Evrópuþinginu eru æ fleiri aðildarríki ESB að koma því á hreint að þessar hryllingsaðferðir á blóðmerabýlum verða að hætta eins fljótt og hægt er.“

Fréttin var leiðrétt þann 26. mars. Áður var gefið til kynna að innflutningur hormónsins til Hollands hefði verið bannaður. Ekki var um að ræða lagalegt bann, heldur ályktun um að framkvæmdastjórn ESB yrði beitt þrýstingi til þess að fyrirhugaðar breytingar á reglugerðum um dýravelferð nægi til að stöðva framleiðslu og innflutning hormónsins.