Á síðustu árum hafa nokkrir skotveiðimenn fundið áberandi vefjaþolhjúpa í bringukjöti andfugla sem þeir hafa verið að skjóta.

Stærð og útlit þolhjúpanna minnir á ósoðin hrísgrjón sem liggja í eða rétt undir yfirborði bringuvöðvanna.

Þarna eru á ferðinni vefjaþolhjúpar einfrumu sníkjudýrs. Erlendis kalla menn þetta gjarnan hrísgrjónabrjóst og svo virðist sem þetta áberandi sníkjudýr hafi ekki farið að finnast fyrr en á allra síðustu árum hér á landi.

„Þetta hefur greinilega verið hér í nokkur ár,“ segir Karl Skírnisson, sníkjudýrafræðingur hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, en þar hefur hann unnið að sníkjudýrarannsóknum á íslenskum fuglum áratugum saman.

Grjónin eru ekki ormar heldur vefjaþolhjúpar, þessir aflöngu strúktúrar eru fullir af litlum frumum sem eru sníkjudýrin sjálf. Um er að ræða frumdýr sem nefnist holdmæra eða Sarcocystis á latínu.

Karl segir holdmærur finnast í öllum grasbítum á Íslandi en vefjaþolhjúparnir verða sjaldnast svona áberandi nema í andfuglum.

Lokahýslar í lífsferli holdmæra eru einhverjar kjötætur, hræætur eða rándýr, sem smitast við að éta hræ með vefjaþolhjúpum í.

Veiðimönnum bregður í brún þegar þeir sjá grjónin í kjötinu. Hér er bringa rauðhöfðaandar.
MYND/AÐSEND

„Helstu áhrifin eru sú að þeir sem hamfletta svona fugla hafa ekki lyst á því að borða þá,“ segir Karl aðspurður um hvaða áhrif tilkoma þessa sjúkdóms hafi. Hann segir holdmærur sennilega ekki hafa nein veruleg heilsufarsleg áhrif á fuglana og að þetta sníkjudýr fari ekki yfir í fólk. Eldunin á fuglunum drepur holdmærurnar, þessi sníkjudýr eru yfirleitt mjög hýsilsérhæfð.

Karli áskotnaðist sýktur fugl fyrir ekki löngu síðan og hefur hann síðan spurst fyrir um þetta meðal skotveiðimanna og fengið nokkur viðbrögð. „Mjög sennilega hafa fuglarnir smitast erlendis, á vetrarstöðvunum sem eru gjarnan í Vestur-Evrópu,“ segir hann en þar er þekkt að lokahýsillinn í lífsferli tegundarinnar sem hér á í hlut sé rauðrefur.

Árið 2017 var sjúkdómurinn umtalaður í Bretlandi og var fólki þá ráðlagt frá því að borða sýkta fugla. Einnig að gefa hundum sínum ekki sýkt kjöt því þeir gætu hugsanlega þannig orðið lokahýslar sníkjudýrsins. Ekkert hefur þó komið fram í framhaldinu um að þetta eigi við rök að styðjast. Þessi holdmæra uppgötvaðist fyrst í Bretlandi árið 2010.

„Smittíðni af hennar völdum hefur greinilega verið að færast í vöxt í Vestur-Evrópu síðasta áratuginn þannig að við því er að búast að endur komi hingað smitaðar af vetrarstöðvunum í auknum mæli næstu árin,“ segir Karl sem biður veiðimenn og aðra sem kynnu að verða varir við sýkta fugla að senda upplýsingar og myndir á tölvupóstfangið karlsk@hi.is