Úkraínskir hermenn á fremstu víglínum landsins þurfa að finna sér ýmsar leiðir til að stytta sér stundir á milli bardaga. Þegar stríðið byrjaði í febrúar á þessu ári neyddust margir til að skrá sig í herinn, margir hverjir sem höfðu aldrei fyrr haldið á skotvopni.

Listamaðurinn Ivan sést hér búa til listaverk úr moldinni í skotgröf sinni. Hann kallar listaverkið sitt „Tákn um baráttu úkraínsku þjóðarinnar“ og sýnir það andlit kósakka. Kósakkar voru upphaflega ánauðugir bændur sem flúðu Rússland á 14. öld og mynduðu sjálfstæð samfélög á gresjunum í Úkraínu.