„Þetta var einróma afstaða,“ segir Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands, RSÍ, um harðorða ályktun stjórnar sambandsins vegna kaupa sænska fyrirtækisins Storytel á 70 prósenta hlut í Forlaginu, stærstu bókaútgáfu Íslands.

Kaup Storytel eru nú til skoðunar hjá samkeppnisyfirvöldum. Stjórn Rithöfundasambandsins kveðst hafa áhyggjur af „enn meira valdaójafnvægi á bókamarkaði,“ ef kaupin gangi eftir, því stærsta bókaútgáfa landsins og eina streymisveita hljóðbóka verði í eigu sama aðila.

„Samruni stórra aðila á markaði leiðir iðulega til skerðingar á virkri samkeppni, sem kemur neytendum og öðrum á markaði illa,“ segir í ályktun stjórnarinnar.

„Stjórn RSÍ vantreystir hinu sænska móðurfélagi og stjórnendum þess, því reynsla höfunda af dótturfélaginu Storytel á Íslandi er ekki góð og sömu sögu má heyra frá félögum okkar á hinum Norðurlöndunum,“ segir áfram í ályktuninni. Greiðslur til þeirra sem eiga verk hjá Storytel á Íslandi séu afar lágar og tekjumódelið ógegnsætt.

„Stjórnin óttast að tilgangur eiganda Storytel á Íslandi, Storytel AB í Svíþjóð, sé að komast nær höfundarverki íslenskra höfunda og eyða allri samkeppni á hljóðbókamarkaði,“ segir áfram. Höfundar og útgefendur ytra hafi borið því vitni að frelsi þeirra og menningarleg áhersla hafi beðið hnekki með eignarhaldi Storytel AB. „Slíkt vekur ugg í brjósti höfunda hér á landi, sporin ytra hræða, en reynslan ein mun leiða í ljós hvort sama öfugþróun verði hérlendis.“

Fundur stjórnarinnar í gær stóð í yfir fjórar klukkustundir. Karl Ágúst segir að þurft hafi að fara yfir mikið af gögnum. „Meðal annars frá hinum Norðurlöndunum, þar sem hafa verið svipaðir hlutir að gerast. Við erum að reyna að læra af reynslu kollega okkar þar og líka reynslu smærri útgefenda á Norðurlöndum,“ útskýrir hann. Þar að auki hafi stjórnin rætt ýmis samningamál sambandsins við Félag bókaútgefenda.

Aðspurður um stöðu annarra bókaútgefenda á Íslandi segist Karl Ágúst hafa þungar áhyggjur af litlu forlögunum. „Þegar tvö stórfyrirtæki sameinast á svona örmarkaði eins og á Íslandi, þá hlýtur það að bitna á þeim sem taka ekki jafn mikið pláss. Þarna eru orðnir ákveðnir yfirburðir og í raun og veru fákeppni með svona samruna,“ segir hann.

Þá undirstrikar Karl Ágúst að hlutverk Rithöfundasambandsins sé að standa vörð um kjör rithöfunda.

„Ef eitthvað gerist sem vekur hjá okkur áhyggjur um að til dæmis samningsstaða rithöfunda gæti versnað, andspænis svona stóru batteríi, verðum við að taka mark á því og láta þær áhyggjur í ljós.“