Kolefnisreiknirinn er samstarfsverkefni OR og Eflu verkfræðistofu og eru það þau Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, og Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur á Eflu, sem hafa unnið í sameiningu ásamt samstarfsfólki að opnun reiknisins.
„Verkefnið á sér sögu tilviljana,“ segir Hólmfríður um það hvernig kom til að fyrirtækin tvö fóru að vinna saman en það hófst þegar Efla var að kynna fyrir starfsmönnum OR „Matarsporið“ sem kynnt var fyrr á árinu.
Hún segir að fyrir kynningu hafi verið búið að ræða innanhúss hjá OR hvort eðlilegt framhald annarra verkefna sem miða að því að draga úr losun, eins og CarbFix-verkefni upp á Hellisheiði, væri ekki að gera eitthvað fyrir viðskiptavini þeirra, sem eru allt að 60 til 70 prósent þjóðarinnar.
Hún segir loftslagsmálin þess eðlis að aldrei hafi komið til greina að rukka fyrir aðgang að reikninum.
„Það var strax tekin ákvörðun um að þetta yrði opið. Loftslagsmálin eru þess eðlis að okkur finnst að fólk eigi að geta, án þess að borga fyrir það, fengið upplýsingar um sína stöðu varðandi kolefnissporið upp á það hvernig það geti brugðist við,“ segir Hólmfríður.
Hún segir að Íslendingar séu miklir neytendur en það sé kannski ekki öllum ljóst hvað það nákvæmlega sé við okkar neyslu sem geri kolefnissporið svo stórt.
Erum í tólf tonnum en þurfum að vera í fjórum
„Hinn almenni íbúi á Íslandi er að losa um tólf tonn á ári og við vitum að ef við ætlum að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins þá þyrftum við að vera núna í fjórum tonnum,“ segir Hólmfríður.
Sigurður segir að það sé margt sem þurfi að gera og málið sé ef til vill flókið fyrir venjulegt fólk. Margir hafi heyrt um kolefnisbókhald og -losun en geri sér illa grein fyrir því í hverju það felst.
„Þetta snýst ekki bara um það sem er að gerast innan landfræðilegrar einingar Íslands, heldur einnig það sem við erum að kaupa frá útlöndum og rannsóknir hafa sýnt fram á að mjög mikið af loftslagsáhrifum á sér stað erlendis, í tengslum við vöru sem við erum svo að neyta hér á Íslandi. Það er einn af hvötunum að því að fara í þetta verkefni, að ná utan um hvað tilheyrir einstaklingi og hans neyslu,“ segir Sigurður.
Hann segir að til dæmis í bókhaldi Íslands sem skilað er alþjóðlega sé öll stóriðja en það sé ekki endilega vandamál okkar sem einstaklinga hér.
„Álið sem er framleitt hér tilheyrir ekki endilega einstaklingnum, heldur frekar álið í símanum sem Íslendingurinn kaupir,“ segir Sigurður.
Hólmfríður segir að hugsunin að baki reikninum sé þannig að færa það nær okkur sem er að baki kolefnissporinu. Hún hafi reynt að nýta erlenda kolefnisreikna, en þeir nýtist Íslendingum illa vegna þess að kynding og lýsing hefur miklu stærra kolefnisspor annars staðar en hér.
„Við erum svo lánsöm að vera hér með græna orku, en þá veltir maður því fyrir sér hvað það er í sporinu okkar sem veldur því að það er svona stórt. Þegar við skoðum gögnin úr reikninum sjáum við að kynding og lýsing er aðeins tvö prósent kolefnissporsins en þetta er þáttur sem þjóðirnar í kringum okkur eru að berjast við. Það sem eftir er eru þá ferðir, matur og vörur og þjónusta og þar er tækifæri til að gera betur,“ segir Hólmfríður.
„Við erum svo lánsöm að vera hér með græna orku, en þá veltir maður því fyrir sér hvað það er í sporinu okkar sem veldur því að það er svona stórt“ segir Hólmfríður
Fyrir kolefnisreikninn hafa því bæði verið framkvæmdar vistferlisgreiningar á neyslu innan- og utanlands og þannig greind umhverfisáhrifin af því sem við kaupum og notum „frá vöggu til grafar“.
„Það er svo mikilvægt að taka til greina hver áhrifin eru til dæmis af því að kaupa kjól sem er saumaður í útlöndum, eða síma eða bíl eða jafnvel eitt avókadó sem ræktað er erlendis. Við þurfum að hugsa hvað sú ákvörðun þýðir, því á hverjum degi höfum við val um hvað við ætlum að hafa í matinn, hvort við ferðumst innan- eða utanlands, hvernig bíl við kaupum, hvort við erum á bíl eða hversu marga kjóla við eigum,“ segir Hólmfríður.

Ábyrgðin liggi ekki einungis hjá einstaklingum
Sigurður segir að þótt það sé mikilvægt fyrir einstaklinga að huga að sinni neyslu þá sé nauðsynlegt að muna að ábyrgðin liggi ekki eingöngu hjá einstaklingum, heldur einnig hjá fyrirtækjum, ríki og sveitarfélögum.
„Við erum ekki að skipa neinum fyrir, heldur erum við einfaldlega að veita fólki upplýsingar sem hafa ekki almennilega verið fyrir hendi áður því þótt ábyrgðin sé ekki eingöngu þeirra þá hljóta einstaklingar að spyrja sig hverju þau séu að valda í þessu og hvert þeirra kolefnisspor sé í þessu öllu saman. Kolefnisreiknirinn er leið til að komast að því,“ segir Sigurður.
„Við viljum ekki skilja fólk eftir í lausu lofti þegar það sér kolefnissporið sitt, en miðað við til dæmis meðal Íslending þarf kolefnissporið að vera einn þriðji af því sem það er í dag til að ná þeim markmiðum,“ segir Sigurður
Hólmfríður tekur undir það og segir að það geti hjálpað einstaklingnum að ákveða að breyta hegðun sinni og neyslu að færa niðurstöðurnar til hans.
Hún segir að hér á landi hafi verið stigið stórt skref árið 2015 þegar hátt í 100 fyrirtæki skrifuðu undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar og þau fengu aðstoð við að setja sér markmið en að á sama tíma sé lítið um leiðbeiningar sem segi einstaklingum til um hvað þeir geti gert.
Með kolefnisreikninum geti fólk tekið upplýsta ákvörðun. Þar sé hægt að finna upplýsingar um losun meðal Íslendings samanborið við hvernig losun þarf að vera til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Þegar búið er að reikna sporið fær hver einstaklingur svo ráð um hvernig hann geti minnkað sína losun.
„Við viljum ekki skilja fólk eftir í lausu lofti þegar það sér kolefnissporið sitt, en miðað við til dæmis meðal Íslending þarf kolefnissporið að vera einn þriðji af því sem það er í dag til að ná þeim markmiðum,“ segir Sigurður.
Reiknirinn sjálfur byggir á fyrrnefndum vistferlisgreiningum þar sem umhverfisáhrifin eru rakin alla leið upp og niður virðiskeðjuna.
„Það segir okkur hvert kolefnisspor einnar vöru er og það notum við í kolefnisreikninum,“ segir Sigurður.
Tækifæri fyrir framleiðendur
Til að reikna kolefnissporið þarf að setja inn ýmsar breytur eins og í hversu stórri íbúð maður býr, hvað maður eyðir miklu í fjarskipti, hversu mikið maður greiðir fyrir húsnæðislánið, hversu margir eru á heimilinu, hversu oft maður flýgur á ári, þær samgönguleiðir sem maður nýtir á hverjum degi, hvort maður neytir kjöts eða ekki og hversu miklu maður eyðir í vörur eða þjónustu á mánuði.
„Þetta er fyrsta útgáfan og við verðum auðvitað að sjá hvernig viðbrögðin verða. Fólk verður kannski ekki glatt að sjá niðurstöðurnar og við lítum á þetta sem tækifæri til að skilja út á hvað þetta gengur,“ segir Hólmfríður.
Þau segja tækifærin sem fylgja reikninum stór fyrir framleiðendur til dæmis, því að miklu leyti er það þeim háð hversu lítið hver einstaklingur nær að gera kolefnisspor sitt. Það séu því mörg tækifæri fólgin í því að framleiðendur merki vörur sínar og kolefnissporið að baki þeim.
„Bara það að vita meira hjálpar okkur til aðgerða,“ segir Hólmfríður.
Sigurður tekur undir það og segir að hann hafi orðið var við það víða að fólk kalli ekki einungis eftir aðgerðum til að bregðast við loftslagsvánni, heldur kalli það einnig eftir upplýsingum og telur að kolefnisreiknirinn geti aðstoðað við það.
„Hvernig á maður að taka ákvörðun um sína neyslu ef maður veit ekki hvað er að valda kolefnissporinu?“