„Við erum alltaf bjart­sýn og við vitum að þetta næst fyrir rest hjá okkur,“ segir Sara Elísa Þórðar­dóttir, vara­þing­maður Pírata, í sam­tali við Frétta­blaðið. Þing­flokkur Pírata náði því í gegn í gær að greidd yrðu at­kvæði í þing­sal um af­glæpa­væðingu neyslu­skammta fíkni­efna. At­kvæða­greiðslan fer að ó­breyttu fram á mánu­dag.

Um er að ræða mál sem hefur verið eitt helsta bar­áttu­mál Pírata en nái frum­varpið fram að ganga verður varsla neyslu­skammta af fíkni­efnum ekki refsi­verð.

„Þetta er búið að vera mikið bar­áttu­mál okkar flokks alveg frá stofnun og mál sem snýst ekki um vímu­efni í sjálfu sér heldur heil­brigðis­vanda­málið sem fíkn er. Það hefur alltaf verið tog­streita gagn­vart þessu at­riði um af­glæpa­væðingu neyslu­skammta en á sama tíma hefur orðið mikil fram­för í skaða­minnkunar­með­ferðum og úr­ræðum,“ segir Sara og bendir á eðli­legt sé að skaða­minnkunar­úr­ræði og af­glæpa­væðing neyslu­skammta haldist í hendur.

Refsingum ekki beitt gegn neytendum

Í greinar­gerð með frum­varpinu er tryggt að á­fram verði hægt að beita refsingum þegar aug­ljóst er að efnin séu ekki ætluð til einka­nota. Inn­flutningur, út­flutningur, sala, skipti, af­hending, fram­leiðsla og til­búningur efna verður á­fram refsi­verður. „Þannig er öruggt að á­fram verður hægt að sak­fella fyrir það sem kann að teljast al­var­legri brot á lögum um á­vana- og fíkni­efni, en refsingum ekki beitt gegn neyt­endum fíkni­efna.“

Sara segir að í frum­varpinu séu til­teknir neyslu­skammtar ekki skil­greindir sér­stak­lega. Bendir hún á að eðli­legt sé að ráð­herra hafi svig­rúm til að leggja mat á það. Sara er þeirrar skoðunar að með­ferðar­úr­ræði og mann­úð­leg nálgun séu það sem virkar en ekki refsingar. „Við höfum reynt að refsa í 40 ár en það hefur ekkert hjálpað.“

Þarf viðhorfsbreytingu

Sara bendir á að í stjórnar­sátt­mála ríkis­stjórnarinnar sé kveðið á um mildari stefnu í fíkni­efna­málum. Þar segir:

„Snúa þarf af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkni­efna en styrkja að­gerðir gegn fíkni­efna­sölum, inn­flutningi og fram­leiðslu fíkni­efna. Tryggja þarf fíklum við­unandi með­ferðar­úr­ræði með sam­vinnu dóms-, fé­lags- og heil­brigðis­kerfis.“

Sara segir að laga­breyting sé eitt en það sem þurfi sé við­horfs­breyting gagn­vart fíkni­efnum á þann veg að við þurfum við­horfs­breytingu gagn­vart fíkn. „Fíkni­vandi er heil­brigðis­vanda­mál og tegund efnanna sem notuð eru í fíkn eru mis­munandi. Fíkni­hegðun getur náð frá kaup­fíkn, spila­fíkn, matar­fíkn og á­fengis­sýki sem er lög­legt vímu­efni. Fíkn er svo flókið fyrir­bæri að birtingar­mynd þess getur náð langt frá hug­breytandi efnum. Það skýtur því skökku við að taka á­kveðnar tegundir efna svona út fyrir sviga,“ segir Sara og nefnir á­fengið sem dæmi.

Hóflega bjartsýn

Sara segir að þing­flokkur Pírata sé hóf­lega bjart­sýnn en mikil­vægt sé að um­ræða um þessi mál komist upp á yfir­borðið. Líta þurfi á fíkn sem heil­brigðis­vanda en ekki glæp. Í greinar­gerð með frum­varpinu er meðal annars fjallað um portúgölsku leiðina svo­kölluðu en árið 2001 voru sam­þykkt lög þar í landi sem gerðu það að verkum að varsla neyslu­skammta allra vímu­efna var ekki lengur refsi­verð. Þess í stað var at­hygli beint að því að veita þeim sem eiga við fíkni­vanda að stríða heil­brigðis­þjónustu.

Þó skiptar skoðanir hafi verið um þessar breytingar virðist árangurinn hafa verið góður. „Fyrir setningu laganna voru glæpir tengdir vímu­efna­neyslu eins og rán, inn­brot og þjófnaður mjög al­gengir. Með til­komu laganna hafa þeir orðið mun sjald­gæfari. Fjöl­margar rann­sóknir hafa verið gerðar á árangri portúgölsku leiðarinnar. Allar hafa þær sýnt að portúgalska leiðin hafi skilað frá­bærum árangri í að takast á við hin ýmsu vanda­mál tengd vímu­efna­mis­notkun,“ segir í greinar­gerð frum­varpsins.