„Það kemur ekki á óvart að við höfum ekki mælst vel í byrjun mánaðar þegar gjörbreyting varð á dreifingu blaðsins, enda tekur það tíma fyrir lesendur okkar að venjast breytingunni,“ segir Jón Þórisson, forstjóri Torgs, sem gefur út Fréttablaðið.
Gallup birti í dag nýja könnun sem gildir fyrir allan janúar sem sýnir minnkandi lestur Fréttablaðsins, en Jón bendir á að Torg hafi látið viðurkennt netkönnunarfyrirtæki gera könnun um lesturinn frá 18. til 25. janúar, eftir að dreifingin varð mun þéttari en í byrjun mánaðarins, og hún sýni til dæmis að meðallestur helgarblaðsins sé 17 prósent.

„Könnun Gallup veldur okkur ekki ugg,“ segir Jón og bendir á að dreifing blaðsins sé að aukast jafnt og þétt á fjölförnum stöðum og núna í febrúar megi búast við því að lestur blaðsins aukist til muna.
„Það tekur tíma að venja trygga lesendur okkar við breytta dreifingu og við á Torgi erum full bjartsýni á að æ þéttari og betri dreifing með nýja mótinu skili okkar sama lestri og áður.
„Það er villandi að birta meðaltalslestur blaðsins allan janúar á meðan breytingin gekk yfir, en miklu raunhæfara að skoða tölurnar fyrir seinni hluta mánaðarins þegar breytingin var um garð gengin,“ segir Jón Þórisson og boðar nýjar tölur um lestur strax í næstu viku.
Þess má geta að lesturinn á Fréttablaðið.is hefur aukist á nýju ári og var nýtt lestrarmet sett aðra vikuna í janúar þegar 111.474 notendur heimsóttu vefinn á degi hverjum að meðaltali. Þá hefur lestur DV.is, sem Torg gefur út, einnig verið góður en um 130 þúsund notendur heimsækja vefinn að jafnaði á degi hverjum.