„Neytendasamtökin telja að þó þessi innheimtukostnaður sé ekki beinlínis í bága við lög, sé hann siðlaus,“ segir í frétt á vef Neytendasamtakanna.
Samtökunum barst ábending frá hópi lögfræðinörda á Facebook um vanskilakostnað smálánafyrirtækisins Núnú. Í fréttinni kemur fram að krafa fyrirtækisins með 12 þúsund króna höfuðstól hafi verið komin í 45 þúsund krónur á aðeins sex vikum, sem jafngildir rúmlega 2.400% vöxtum á ársgrundvelli.
Ekkert þak á innheimtukostnað
„Samkvæmt lögum má árleg hlutfallstala lántökukostnaðar nema að hámarki 35% að viðbættum stýrivöxtum Seðlabankans, sem nú eru 5,5%. Ekkert hámark er á innheimtukostnaði og því er fyrirtækjum í sjálfsvald sett hversu hár hann er,“ segja Neytendasamtökin og bæta við:
„Neytendasamtökin telja að þó þessi innheimtukostnaður sé ekki beinlínis í bága við lög, sé hann siðlaus og hafa margsinnis kallað eftir því að Alþingi stöðvi ósvinnuna með nauðsynlegum lagabreytingunum, líkt og nágrannalönd hafa gert.“
Sögð nýta sér gloppuna
Bent er á erindi sem Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sendi dómsmálaráðuneytinu þann 23. nóvember 2020. Í erindinu kom fram að á árunum 2018 til 2020 hafi á fimmta hundrað manns leitað til Neytendasamtakanna vegna harðneskjulegra innheimtuaðgerða.
Bent var á að lántakendur væru varnarlausir gagnvart kostnaði innheimtufyrirtækja, þar sem þeir eiga ekki í viðskiptasambandi við þau, heldur við kröfuhafa. Þá væri viðskiptasamband kröfuhafa og innheimtufyrirtækja oft á þann veg að hvorugur hefði hag að því að leitað sé hagræðingar við innheimtu, á kostnað neytenda.
„Þess má geta að smálánafyrirtækin nýta sér þessa gloppu. Eftir vel heppnaðar breytingar á lögum um neytendalán þar sem þak var sett á vexti, nýta smálánafyrirtæki nú það að ekkert hámark er á innheimtukostnaði og hala inn sömu og jafnvel hærri upphæðum í gegnum innheimtugjöld og þau gerðu áður með okurvöxtum. Þannig hafa Neytendasamtökin séð dæmi þess að nokkur hundruð króna umdeildar kröfur beri tugþúsunda innheimtukostnað.“
Í frétt á vef Neytendasamtakanna segir að erindinu hafi enn ekki verið svarað, tæpum tveimur árum síðar.