Verulegra breytinga hefur séð stað í þróun byggðasvæða hér á landi á síðustu árum og vekur þar einna mesta athygli að fólksfækkun utan höfuðborgarsvæðisins hefur víðast hvar stöðvast. Þessara umskipta varð fyrst vart um síðustu aldamót, en svo virðist sem þau séu að festa sig í sessi.

Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og rannsóknaprófessor í byggðafræði við Háskólann á Akureyri, bendir á að fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu hafi verið um eða undir landsmeðaltali frá aldamótum á sama tíma og mikill vöxtur hafi verið á byggðasvæðunum í kringum suðvesturhornið, suður með sjó, fyrir austan fjall og norðan Hvalfjarðar.

Fólki hafi jafnframt fjölgað í flestum öðrum landshlutum, en innan landshlutanna hafi verið sterk tilhneiging til þess að íbúum fjölgi á stærri stöðunum en fækki í minni byggðarlögum. Þóroddur bendir á að hluti skýringarinnar felist í aðflutningi fólks frá útlöndum, sem hafi dreifst tiltölulega jafnt um landið og hafi sérstaklega styrkt byggðir í vörn eins og opinberar tölur styðji.

Önnur ástæða sé sú – og sæti tíðindum – að landsbyggðirnar sem liggi fjærst Reykjavík tapi ekki lengur mörgum íbúum til höfuðborgarsvæðisins, heldur hafi nánast náðst jafnvægi á milli þessara svæða með minnkandi flutningum utan af landi til Reykjavíkur og bæjanna við borgarmörkin.

Stóra myndin sé raunar sú að höfuð­borgarsvæðið leiði ekki lengur íbúafjölgun, landsbyggðin haldi sínu og víða gott betur og suðvestursvæðið, sem liggur á milli Hvítánna í Borgarfirði og Árnessýslu, vaxi nú heldur á kostnað höfuðborgarsvæðisins frá því sem áður var. Stóra myndin sýni því öðru fremur að langtum meira jafnvægi ríki nú á milli þessara þriggja byggðasvæða landsins en áður hefur þekkst.

Sem dæmi um breytingarnar á byggðaþróun á þessari öld nefnir Þóroddur Akureyri, sem sé sér á báti, enda langstærsta byggðarlagið utan suðvesturhornsins og raunar fjölmennari en landshlutar á borð við Vestfirði, Norðurland vestra og Austurland. Þar hafi fólksfjölgunin verið nánast línuleg í heila öld, þótt sveiflur hafi verið á milli ára. Vöxtur bæjarins hafi samt ekki verið á kostnað annarra byggðarlaga á Norðurlandi, heldur hafi þau náð til sín hluta þess straums sem annars hefði farið til höfuðborgarsvæðisins, svo sem sýnt er fram á í nýrri rannsókn í Journal of Rural Studies.

Hvað allra nýjustu íbúatölur frá byrjun nýs árs varði, haldist sama þróun áfram á landsvísu, fjölgi fólki um 2,0% en fjölgunin á höfuðborgar­svæðinu sé 1,9% eða rétt undir landsmeðaltali. Á Hvítársvæðinu fjölgi fólki hins vegar um 3,2%, en vöxturinn sé nú mestur fyrir austan fjall fremur en á Suðurnesjum.

Áfram fjölgi fólki á stærstu stöðunum í öðrum landshlutum en á síðasta ári hafi hins vegar orðið sú breyting að fólki fjölgar enn meira á jaðarsvæðum á borð við Suðausturland og sunnanverða Vestfirði. Með svipuðum hætti sé fjölgunin á Akureyri rétt yfir landsmeðaltali en um 3% á áhrifasvæði Akureyrar í sunnanverðum Eyjafirði.

17myn29myn10myn17myn16_b_0.jpg

Þóroddur Bjarnason prófessor