Sýkla- og veiru­fræði­deild Land­spítala hóf fram­kvæmdir innan deildarinnar í gær til að stækka rými hennar svo hægt væri að koma fyrir nýjum tækjum sem greina sýni. Deildin var þannig í fullum undir­búningi við það að taka við skimunar­verk­efninu við landa­mærin sem Ís­lensk erfða­greining (ÍE) hefur farið með stærstan þátt í hingað til. Sama dag og fram­kvæmdirnar hófust á spítalanum til­kynnti Kári Stefáns­son, for­stjóri ÍE, að fyrir­tækið ætlaði að draga sig úr verk­efninu eftir næsta mánu­dag.

Hafa pantað þrjú tæki


Þegar Ís­lensk erfða­greining sam­þykkti að taka þátt í skimuninni við landa­mærin gerði Kári öllum ljóst að fyrir­tækið myndi ekki sinna skimun til fram­tíðar. Hann setti það skil­yrði fyrir tíma­bundinni þátt­töku ÍE að Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir færi með stjórn verk­efnisins og að sýkla- og veiru­fræði­deild yrði efld svo hún gæti á endanum tekið al­farið við skimunar­verk­efninu.

Að­spurður segir Karl Gústaf Kristins­son, yfir­læknir sýkla- og veiru­fræði­deildar, að undir­búningur til að taka yfir verk­efnið af ÍE hafi verið í fullum gangi þegar Kári birti yfir­lýsingu sína í gær um að ÍE ætlaði að hætta allri að­komu að skimuninni eftir næsta mánu­dag, 13. júní. „Já, það hefur allt verið á fullu. Þetta gengur bara ekki eins hratt hjá hinu opin­bera og hjá einka­fyrir­tæki eins og Kári er með,“ segir Karl Gústaf í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir að Land­spítalinn sé búinn að panta inn þrjú ný tæki sem auka af­kasta­getu deildarinnar til greininga og þegar þau verði öll komin verði hægt að greina þar um fjögur til fimm þúsund sýni á dag. Af­kasta­getan yrði þá meiri en hún er núna hjá ÍE, sem getur greint um tvö til þrjú þúsund sýni á dag. Eitt tækið er komið til landsins en Land­spítalinn er á bið­lista eftir hinum tveimur tækjunum en mikil eftir­sókn er eftir slíkum greiningar­tækjum í heiminum í dag. „Það er alla­vega löng bið eftir öðru þeirra en hitt kemur vonandi fljót­lega til landsins,“ segir Karl Gústaf.

Íslensk erfðagreining hefur séð um langstærstan hluta skimunarinnar, bæði við landamærin og áður en skimun þar hófst.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Nýbyrjuð að brjóta niður veggi


Til að koma tækjunum fyrir þarf að stækka að­stöðu fyrir greiningar á Land­spítalanum. „Þetta tekur allt tíma. Það þarf að teikna upp breytingarnar, taka þær út með verk­fræðingum, svo þarf að kostnaðar­greina og loks að fá sam­þykki fyrir kostnaðinum. Svona virkar hið opin­bera,“ segir hann. Yfir­lýsing Kára kom á heldur ó­heppi­legum tíma; þegar deildin var ný­búin að fá sam­þykki fyrir breytingunum frá ráðu­neytinu. „Við fengum sam­þykkið í gær [frá ráðu­neytinu] og þá var strax byrjað að brjóta niður veggi. Þannig að akkúrat sama daginn og við fáum þessa til­kynningu [frá Kára] þá er verið að brjóta niður veggi á deildinni hjá okkur,“ segir Karl Gústaf.

Karl var á leiðinni á fund með starfsfólki veirufræðideildar um stöðuna þegar Frétta­blaðið náði tali af honum. Hann segir að þar verði farið yfir hver af­kasta­getan sé nú þegar eitt tækið er komið en of snemmt sé að segja til um það. „Við þurfum að fara yfir alla stöðuna. Það er ekki nóg að hafa tækin heldur verðum við líka að fá starfs­fólk og það eru margir í sumar­fríi núna.“

Hann segir þá að einnig verði að taka stöðuna á birgðum Land­spítalans á sýna­töku­settum og hvarf­efnum, sem notuð eru við greiningu á sýnum. „Við eigum ekki eins mikið af sýna­töku­settum og Ís­lensk erfða­greining. Ég veit ekki, vonandi getum við fengið eitt­hvað frá þeim, því það hefur bara verið og er enn þá mjög erfitt að fá sýna­töku­sett í dag.“