Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta (MÍB) lagði ekki fullnægjandi grunn að niðurstöðu sinni þegar þau höfnuðu umsókn um útgáfustyrk. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis sem gefið var út í dag.
Maður sem fékk synjun um útgáfustyrk úr bókmenntasjóði sendi inn kvörtun til umboðsmanns Alþingis. Niðurstaða umboðsmanns var sú að Miðstöð íslenskra bókmennta hefði ekki unnið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti þegar umsókninni var hafnað.
„Í kjölfar skýringa stjórnarinnar beindist athugun umboðsmanns einkum að því hvort skráning upplýsinga um meðferð umsókna og undirbúningur ákvörðunar um úthlutun hefði verið fullnægjandi. Benti hann á að stjórninni bæri að haga undirbúningi mála þannig að hún gæti gert grein fyrir því hvað hefði einkum ráðið niðurstöðu um hverja umsókn,“ segir á vef umboðsmanns Alþingis.
Þar kemur einnig fram að engu hafi breytt þótt ákvarðanir af þessu tagi væru undanþegnar skyldu til rökstuðnings og kæruheimild. Að sögn umboðsmanns varð það ekki ráðið af þeim gögnum sem honum bárust frá stjórn MÍB hvaða sjónarmið réðu mati ráðgjafa og engin gögn lágu fyrir um meðferð stjórnarinnar á umsókninni.
„Af þeim sökum væri ómögulegt að staðreyna hvort þau sjónarmið sem stjórnin kvaðst hafa byggt á hefðu í reynd verið lögð til grundvallar ákvörðuninni eða hvort umsögn ráðgjafanna hefði sjálfkrafa leitt til þess að umsóknin hefði ekki komið til frekara mats af hennar hálfu,“ segir í áliti umboðsmanns.
„Af sömu ástæðum væri ekki hægt að taka afstöðu til þess hvort stjórnin hefði gætt málefnalegra sjónarmiða við ákvörðun sína. Skráning upplýsinga af hálfu stjórnar Miðstöðvar íslenskra bókmennta hefði þar af leiðandi ekki verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.“
Útgáfustyrkjum MÍB er einungis úthlutað einu sinni á ári og þar sem úthlutun var lokið þetta árið taldi umboðsmaður ástæðulaust að beina því til stjórnar að taka málið upp að nýju. Manninum væri þó frjálst að leggja aftur inn umsókn vegna sama rits að ári liðnu. Umboðsmaður ráðlagði þó stjórninni að taka framvegis mið af áðurnefndum sjónarmiðum álitsins við meðferð og afgreiðslu umsókna í framtíðinni.