Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu tvímenningarnir úr hryðjuverkamálinu sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Það var staðfest í hádeginu í dag.

„Niðurstaðan er sú að héraðsdómur hafnar því að það séu almannahagsmunir til staðar fyrir því að sakborningar í hinu svokallaða hryðjuverkamáli sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna,“ segir Sveinn Andri Sveinsson lögmaður þess sem hefur verið ákærður fyrir skipulagningu hryðjuverkanna.

Spurður um líðan umbjóðanda hans segir hann þetta hafa verið mikinn tilfinningarússíbana.

„Þetta var ákveðinn léttir að losna úr varðhaldi. Honum leið ekki vel í fangelsi. Hann er ekki sterkur á svellinu þegar kemur að andlegri heilsu. Hann hefur glímt við sín áföll en það var miklu fargi af honum létt þegar hann losnaði á þriðjudag,“ segir Sveinn Andri Sveinsson lögmaður þess sem hefur verið ákærður fyrir skipulagningu hryðjuverkanna.

Sveinn segir að sjaldan hafi „tilfinningalegur rússibani“ átt jafn vel við og svo þegar krafan kom í gær um áframhaldandi varðhald mannsins.

„Hann hefur farið upp og niður. Hann fer vonandi upp núna og helst vonandi þar,“ segir Sveinn.

Hann segir að auðvitað sé hægt að kæra þennan úrskurð og það sé undir ákæruvaldinu hvort það sé gert.

„En þau ættu bara að segja hingað og ekki lengra en það er auðvitað ákæruvaldið sem stjórnar því.“

Mennirnir voru báðir látnir lausir fyrr í vikunni eftir að Landsréttur felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð um áframhaldandi varðhald þeirra eftir að geðlæknir mat mennina ekki hættulega.

Lögmenn beggja manna sögðu í morgun í samtali við Fréttablaðið að beiðni um áframhaldandi varðhald hefði komið þeim á óvart og væri á skjön við það sem væri komið fram um að mennirnir væru ekki hættulegir.

Fréttin hefur verið uppfærð.