Bæjarstjórn Fjallabyggðar fer nú yfir leiðir til þess að bjarga Siglunesi, lítilli tá milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar, fyrir ágangi sjávar. En hún á stóran þátt í að gera Siglufjarðarhöfn einhverja þá bestu á landinu.

Hefur skipulags og umhverfisnefnd sveitarfélagsins lagt til að sótt verði um framlag til Vegagerðarinnar í samvinnu við landeigendur vegna ágangs.

Gunnar Trausti Guðbjörnsson, sem er brottfluttur Siglfirðingur og ritstýrir Siglfirðingablaðinu, fer nú fyrir átakinu Björgum Siglunesi. Segir hann vitneskjuna um þessa vá ekki nýja af nálinni.

Afi eins úr hópnum, gamall skipstjóri, hafi nefnt í kringum árið 1970 að skelfilegt yrði ef nesið færi og aldan kæmist beint inn í fjörðinn. Staðkunnugir menn fullyrði að um 20 til 30 metrar af hinu mjóa nesi hafi horfið í sjóinn á undanförnum áratugum.

Var um langt skeið prestssetur

Jörðin Siglunes lagðist í eyði árið 1988 en þar var um langt skeið prestssetur og ein helsta hákarlaverbúð landsins. Liggja því merkar minjar þar í jörð. Árið 2011 lét Fornleifavernd ríkisins gera úttekt á Siglunesi þar sem landbrot var meðal annars metið. Kom þar fram að töluvert landbrot hefði verið undanfarin 60 ár, gróðurþekja minnkað, sumar minjar skemmst vegna ágangs og einhverjar minjar þegar horfið í sjó.

„Þar sem nesið er mjóst er gróðurþekjan á algjöru undanhaldi,“ segir í skýrslunni. Var áætlað að nesið hefði mjókkað um 6 til 10 metra á aðeins einum áratug, eða frá árinu 2000, og lagt til að björgunaruppgröftur væri gerður til þess að forða minjum áður en þær hyrfu í sjóinn.

Þó að slæmt sé að minjar hverfi hafa Gunnar og fleiri meiri áhyggjur af höfninni og kaupstaðnum. „Ef nesið fer í miðjunni er þetta bara búið,“ segir hann. „Þá fer restin á nokkrum árum og aldan kemur óbrotin inn í fjörðinn. Það verður ekki hægt að landa skipum og stór skemmtiferðaskip munu ekki geta sett farþega í land.“

Þá telji sumir að þetta muni einnig hafa voveifleg áhrif á flugvöllinn, sem liggur suðaustanmegin í firðinum, gegnt bænum.

Ekki tlviljun að Siglufjörður yrði farsælt sjávarpláss

Siglufjörður varð ekki að einu farsælasta sjávarplássi landsins fyrir tilviljun. Aðstæður í firðinum og verndin frá Siglunesi gera það að verkum. „Ég var sjálfur á sjó og fann mikinn mun á að sigla þarna inn miðað við til dæmis Ólafsfjörð þar sem norðanaldan gengur beint inn. Þetta er algjör lífhöfn á þessu svæði,“ segir Gunnar.

Ekki hefur verið reiknað út hvað það taki langan tíma fyrir nesið að brotna niður, en ljóst er að eftir því sem það minnkar gengur niðurbrotið hraðar. Segir Gunnar það því afar brýnt að ráðast í aðgerðir. Kostnaðurinn hefur heldur ekki verið metinn en tölum á bilinu 1 til 2 milljörðum króna hefur verið kastað fram. Reka þurfi þil og sprengja grjót úr fjöllunum til að styðja það.

Gunnar Trausti Guðbjörnsson.
Mynd/Aðsend