Útlit er fyrir að gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga verði á bilinu 5 til 10 prósent í flestum flokkum. Í faraldrinum voru þær flestar ekki hærri en 2,5 prósent. Tillögur um hækkanir gætu þó breyst í ljósi breyttrar verðbólguspár Hagstofunnar og kjaraviðræðna.

„Það er ekki ljóst hvernig þetta fer,“ segir Sigurður Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fljótt á litið sýnist honum gjaldskrárhækkanir vera á bilinu 5 til 10 prósent en sambandið hefur ekki nákvæma yfirsýn yfir það.

Fjárhagsáætlanir hafa verið lagðar fram en ekki samþykktar og gætu breyst. „Þessar hækkanir eru byggðar á eldri spám Hagstofunnar frá því í júní. Síðan hefur komið ný spá með verri verðbólguhorfum,“ segir Sigurður. „Það hafa líka komið kröfur frá verkalýðshreyfingunni um að bæði ríki og sveitarfélög stilli gjaldskrárhækkunum í hóf.“

Hjá Reykjavíkurborg eru algengar gjaldskrárhækkanir í kringum 5 prósent. Þetta á meðal annars við leikskólagjöld, frístundaheimili og árskort í sund. Þetta eru minni hækkanir en víða annars staðar en á móti kemur að fasteignagjöldin hækka að meðaltali um 20 prósent þar sem álagningarhlutfallið verður óbreytt, það er 0,18 prósent af fasteignamati heimila og 1,6 prósent af atvinnuhúsnæði.

Í Kópavogi verða almennar gjaldskrárhækkanir 7,7 prósent og í Hafnarfirði er algeng hækkun 9,5 prósent. Svo sem á heimaþjónustu, leikskólagjöldum, tónlistarskóla og fæðisgjaldi í skólum. Sorphirðugjald í Hafnarfirði hækkar hins vegar um 31,5 prósent.

Akureyrarbær hefur boðað 10 prósenta hækkanir á velferðarsviði, svo sem í félagslegri heimaþjónustu og heimsendum mat. Annað hækkar um 7 til 10 prósent.

Í Skagafirði hefur til dæmis verið boðuð 6 prósenta hækkun leikskólagjalda og 7,7 prósenta hækkun fæðisgjalds, bæði í grunn- og leikskólum. Hækkanir eru hófsamari í Fjarðabyggð, tæp 5 prósent í flestum flokkum svo sem vatns- og hitaveitu, leikskóla og frístund.

Í faraldrinum gaf Samband íslenskra sveitarfélaga út tilmæli, vegna Lífskjarasamninganna, um að gjaldskrárhækkanirnar yrðu ekki meiri en 2,5 prósent. Sigurður segir að hóflegar hækkanir séu að koma í bakið á sveitarfélögunum, sem glími mörg hver við erfiðleika.

Vandinn nær hins vegar lengra aftur í tímann. „Yfir lengri tíma séð hafa gjaldskrár sveitarfélaga alls ekki haldið í við verðbólgu eða lífskjör almennings,“ segir Sigurður og nefnir leikskólana sem dæmi. Það er að í upphafi aldarinnar hafi leikskólagjöld dekkað um 25 til 30 prósent rekstrarkostnaðar.

Þetta hlutfall var rúmlega 9 prósent í fyrra og miðað við aukinn fyrirséðan rekstrarkostnað munu þær gjaldskrárhækkanir sem boðaðar hafa verið ekki ná að halda í við hann.