Yfirvöld í Nepal gáfu í gær út tilkynningu þess efnis að líkamsleifar allra farþega flugvélar sem fórst í Himalajafjöllum á sunnudag, fyrir utan eins, væru fundnar.

Flugvélin, sem var á vegum flugfélagsins Tara Air, hrapaði í lélegum veðurskilyrðum en þéttskýjað var þegar atvikið átti sér stað. Nepalski herinn fann vélina í gær.

Sextán Nepalar voru um borð í vélinni ásamt tveimur Þjóðverjum og fjórum Indverjum. Ekki er talið líklegt að farþeginn sem enn er leitað finnist á lífi. Reuters greinir frá.