Lögregla hafði í morgun afskipti af karlmanni sem átti að vera í einangrun. Lögreglumenn sáu hann á ferðinni í Mosfellsbæ skömmu fyrir klukkan sjö, könnuðust við manninn og vissu til þess að hann væri smitaður af COVID-19.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að hún hafi síðan tryggt að maðurinn færi beinustu leið aftur að þeim stað sem hann átti að vera á í einangruninni. Má hann búast við því að verða kærður fyrir brot á sóttvarnarreglum, að sögn lögreglu.

Segir í tilkynningu að lítið annað fréttnæmt hafi átt sér stað þennan morguninn „annað en nokkuð hefðbundin lögreglumál.“

Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að lög­reglan hafi í meiri mæli en áður af­skipti af fólki vegna allskyns mála, og verði þess áskynja síðar að viðkomandi áttu að vera í sóttkví.

„Það eru nokkur svo­leiðis mál sem hafa komið upp,“ sagði Víðir og bætti við að þetta væri allt­ of al­gengt.