Benedikt Bóas Hinriksson
benediktboas@365.is
Fimmtudagur 25. nóvember 2021
10.00 GMT

Varðskipið Týr lagðist að bryggju í síðasta sinn um miðjan mánuðinn. Týr hefur leikið afar stórt hlutverk í sögu Landhelgisgæslunnar en það kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur árið 1975 og var þá dýrasta fley landsins. Það þótti mikið tækniundur. Það kostaði um einn milljarð króna og var þá dýrasta og fullkomnasta skip landsins.

„Hvað fær maður fyrir milljarð?“ var fyrirsögn á fjögurra blaðsíðna úttekt Tímans skömmu eftir komu skipsins. Þar var farið yfir tækninýjungar og sérstaklega vikið að Sperry-tölvuradar sem gat séð á augabragði hvort togarar væru að veiða eða ekki. Slíkt tók áður margar mínútur og var gert handvirkt. Þá var skurðstofan mærð og ýmislegt fleira en blaðamanni Tímans fannst lágkúra í myndavali skipsins. Milljarðaskipið hefði ekki átt að vera skreytt með eftirprentunum.

Umfjöllun Tímans um Tý.
Landhelgisgæslan
timarit.is

Týr stóð vaktina með slíkum sóma að eftir var tekið í fiskveiðideilunni við Breta árið 1976 enda stóð skipið uppi í hárinu á freigátum Breta og beitti togvíraklippum af mikilli nákvæmni.

Í BA-ritgerð Flosa Þorgeirssonar, Stál í stál, sem Guðni Th. Jóhannesson var leiðbeinandi að, er fjallað um árekstra og ásiglingar í þorskastríðunum. Bók Guðna, þorskastríðin þrjú, var töluvert skarpari en Íslendingar höfðu átt að venjast og hetjulómi Týs var settur í söguskoðun vísindamanns – sem ekki allir voru sáttir við.

Skipið var jú aðalsögupersónan í þriðja þorskastríðinu og skipherrarnir dásamaðir hér heima og hafnir upp til skýjanna. Í ritgerð Flosa er einmitt vikið að því að íslensku skipherrarnir hafi verið orðnir full uppteknir af eigin frægð og frama heima fyrir og farnir að láta illa að stjórn.

Flosi bendir á að Geir Hallgrímsson forsætisráðherra á að hafa kvartað yfir þessu við sendiherra Noregs á Íslandi. „Óljóst er þó hvernig norski sendiherrann átti að bjarga því máli,“ skrifar Flosi.

Flosi rýndi í Þorskastríðið í ritgerð sinni þar sem Guðni Th. var leiðbeinandi.

Fertugur í Miðjarðarhafi

Þrátt fyrir að Týr hafi upphaflega verið smíðaður til eftirlits- og björgunarstarfa á Íslandsmiðum hefur skipið farið víða, eða allt frá botni Miðjarðarhafs til Norfolk í Virginíu í Bandaríkjunum og norður fyrir Svalbarða í Norðurhöfum.

Saga Týs við Íslandsmið er nánast ein samfelld sigurganga. Halldór B. Nellett fyrrverandi skipherra þekkir sögu Týs betur en flestir. Þegar Týr varð fertugur var hann staddur í björgun í Miðjarðarhafi og skrifaði Halldór aðeins um sögu hans á milli verkefna.

Halldór byrjaði aðeins 16 ára hjá Landhelgisgæslunni og hefur starfað nánast á flestum sviðum. „Ætli ég sé ekki búinn að vinna við flest nema í vélarúminu,“ segir hann. Halldór segir að allur aðbúnaður um borð hafi verið í öðrum gæðaflokki en áður hafði þekkst. Allir í sérherbergjum og brúin hafi verið sérlega vel hönnuð. Þá var skipið búið bestu siglingatækjum.

„Mesti munurinn var tölvuradarinn. Guðmundur Kjærnested skipherra hældi þessu mikið. Hann hafði þarna smá forskot í þorskastríðinu og sá hver var að veiða og hver ekki. Radarinn var mikil bylting.“

Halldór byrjaði 16. ára hjá gæslunni.
Landhelgisgæslan

Ekki alltaf dans á rósum

Halldór segir að andinn um borð hafi alltaf verið góður en að sjálfsögðu komu dimmir dalir inn á milli enda skipið sent á staði sem aðrir vilja helst ekkert vera á. „Þetta var ekki alltaf dans á rósum enda fór skipið í mörg alvarleg tilvik sem mörg hver taka á.

Ekkert tók þá meira á en þegar Sigurður vinur minn Bergmann lést um borð í desember 1990. Ég hef komið að alls konar en það slys situr í mér. Það var svo skelfileg aðkoma og var óskaplega sorglegt slys. Það var mikill missir að Sigurði enda mikill öðlingur og mikið ljúfmenni,“ segir Halldór.

Hann segir að tími Týs sé einfaldlega liðinn og þótt hann vilji halda þessari fyrrum hetju Íslandsmiða áfram er hann ekki í neinum vafa um að Landhelgisgæslan sé komin með frábær skip í stað þeirra sem eldri eru. Freyja, nýjasta skip gæslunnar, hélt einmitt í sína fyrstu eftirlitsferð á þriðjudag um Íslandsmið.

„Týr var frábært skip en er auðvitað barns síns tíma. Það var smíðað 1975 og er eins og Ægir sem var smíðað 1968. Þá var ekkert búið að finna upp skuttogara og bara síðutogarar við landið.

Í dag ræður Týr ekkert við þessi stóru skip svo við tölum nú ekki um stóru skemmtiferðaskipin ef þau myndu bila. Þó mér þykir vænt um skipið og vildi helst hafa það áfram í eigu Íslendinga þá er tími Týs einfaldlega liðinn,“ segir Halldór.

Gamli tíminn við hlið þess nýja.
GVA
Athugasemdir