Ríkissaksóknari New York, Letitia James, hefur tilkynnt að hún muni höfða mál til að leysa upp Landssamband byssueigenda í Bandaríkjunum, NRA, vegna fjármálamisferlis en þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Fjórir einstaklingar hafa verið nefndir sem sakborningar í málinu, þar á meðal Wayne LaPierre, framkvæmdastjóri NRA, en James segir sambandið hafa lagt milljónir Bandaríkjadala inn á reikninga yfirmanna sambandsins.

Þá hafi LaPierre gegnt lykilhlutverki þegar kom að misferli sambandsins, til að mynda hafi hann ferðast átta sinnum með einkaþotu til Bahama-eyja með fjármagni sambandsins.

Neitar því að ákvörðunin sé pólitísk

Að sögn James nær meint misferli sambandsins langt aftur í tímann og að spilling innan sambandsins væri svo víðtæk að nauðsynlegt væri að leysa sambandið upp. „Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að [sambandið] hafi því miður verið notað sem persónulegur sparibaukur fyrir fjóra sakborninga,“ sagði James um málið.

Í tilkynningu frá sambandinu á Twitter kemur fram að um sé að ræða tilhæfulausa árás gegn sambandinu og stjórnarskrá Bandaríkjanna. Þá hafi ákvörðunin verið tekin vegna pólitískra hagsmuna.

Sambandið á sterk tengsl við Repúblikanaflokkinn í Bandaríkjunum en James, sem er sjálf Demókrati, neitaði því alfarið að pólitík hafi spilað hlutverki við ákvörðunina.