„Þessi ótrúlega umræða sem upp hefur komið um fjórða orkupakkann kallar á nánari greiningu,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, við upphaf enn einnar ræðu sinnar um þriðja orkupakkann á Alþingi í kvöld. Miðflokksmenn hafa einir rætt málið í pontu frá því um miðjan dag en skemmst er að minnast þess að þeir ræddu málið fram á rauða nótt í gær.

Sigmundur Davíð sagði nú rétt í þessu að honum hafi borist í hendur „sjóðandi heit skýrsla um fjórða orkupakkann frá Oxford Institite for Energy Studies“, eða rannsóknarsetri Oxfordháskóla um orkumál, eins og hann sjálfur þýddi nafn stofnunarinnar.

Hann segir að sú skýrsla verði að bíða næstu ræðu því nú sé hann kominn í pontu til að ræða um Noreg. „Ég vil því biðja forseta að setja mig aftur á mælendaskrá, því ekki má gleyma Kýpur,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, áður en hann sneri sér að efninu; Noregi.

Alls er óvíst hvenær umræðu um málið lýkur eða hversu lengi yfirstandandi þingfundur mun standa. Helgi Hrafn Gunn­ars­son, þingmaður Pírata, er á meðal þeirra sem kallað hefur umræður þingmanna Miðflokksins málþóf.