Höfundar Áramótaskaupsins héldu krísufund í dag vegna fregna af Klaustursupptökunum svokölluðu. Ummæli sem sex þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla um hina ýmsu þingkonur og menn hafa vakið harða gagnrýni. Hafa þingmennirnir meðal annars sakaðir verið um kvenfyrirlitningu og fordóma. Ummælin voru tekin upp þegar þingmennirnir sátu á barnum Klaustur í miðbæ Reykjavíkur og var vín haft við hönd. 

Arnór Pálmi Arnarsson, einn höfunda skaupsins, segir í samtali við Fréttablaðið að haldinn hafi verið krísufundur í dag. Landsmenn verði þó að bíða og sjá hvort Klaustursupptökunum bregði fyrir í skaupinu, en um sé að ræða eitt stærsta fréttamál ársins. 

Stífar tökur hafa staðið yfir síðustu tvær vikur og segir Arnór það hefði sannarlega verið hentugara ef að Klaustursupptökurnar hefðu komið fyrr fram. „Þegar þetta gerist svona seint á árinu þá hugsar maður vá, gat þetta ekki gerst aðeins fyrr.“ Arnór segir það þó geta verið erfitt, að búa til brandara mitt í auga stormsins, en Klaustursupptökurnar séu gott efni í skaupið. 

„Þegar maður er í sjokki og trúir varla að eitthvað hafi gerst getur maður auðvitað fundið spauglega hlið. Ég lofa engu, en þetta hefur verið rætt.“ 

Þá segir Arnór að honum finnist sjálfum grín, góðan farveg fyrir ádeilu. „Þegar fólki er ofboðið fer það að grínast,“ segir hann og bendir á umræðuna sem hefur verið á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum síðustu daga. „Þetta er eiginlega svo svakalegt að fólk hlær bara varnarhlátri. Maður er bara í sjokki og aldrei hefði mér í ágúst dottið í hug að við gætum skrifað svona skets, en svo gerist þetta bara.“

Arnór segir að alla sem vinna að skaupinu taka starfinu mjög hátíðlega, enda er það heilög stund hjá mörgum landsmönnum að horfa á Áramótaskaupið ár hvert. „Við erum að grínast með það á setti að við séum að vinna fyrir þjóðina og landið,“ segir Arnór að lokum.