Þóra Kristín Þórsdóttir, forynja kvennahreyfingarinnar, segir í ræðu sinni sem hún flutti á Austurvelli í gær, að þjóðin hafi ekki efni á að hafa þá þingmenn á þingi sem sátu á drykkjarsamsæti á Klaustur bar í síðustu viku. Þóra birti ræðu sína á Facebook síðu sinni nú í dag og má sjá hana hér að neðan. 

Í ræðu sinni segir Þóra að eftir alla umræðuna um jafnréttismál að undanförnu og þá sigra sem hafa unnist með tilliti til #metoo og #höfumhátt að þá hafi það verið lamandi að frétta að þingkarlar, sem baðaðir hafi verið hóli hérlendis og erlendis fyrir framlag sitt til jafnréttisbaráttunnar, skyldu nota orð eins og klikkuð kunta, apaköttur og helvítis tíkur um kvenkyns kollega sína.

„Ekki minnkaði áfallið við að heyra líka að við sama tilefni hefði einni flottustu baráttukonu þessarar þjóðar verið líkt við dýr. Eftir hundrað ár af fullveldi er sumsé enn verið að kjósa fólk á þing sem ekki ber virðingu fyrir fólki sem tilheyrir öðrum hópum en það gerir sjálft. Eins og þessi hundrað ár hafi bara alls ekki liðið.“

Sjá einnig: Ísland ekki „paradís fyrir konur“

Þá spyr hún hversu týpískt það væri ef að upptökurnar yrðu einungis til þess að óbreytta þingkonan í hópnum tæki ein pokann sinn. „Við erum öll meira og minna háð því að bæði stjórnin, sem skapar stefnuna, og stjórnarandstaðan, sem ber jú að gagnrýna téða stefnu og leggja til betrumbætur, séu skipuð almennilegu fólki. Fólki sem vinnur vinnuna sína, en situr ekki full á bar spúandi hatri þegar verið er að ræða fjárlög, svo dæmi sé tekið.“

Að lokum ávarpar hún þá þingmenn sem sátu á Klaustur bar í síðustu viku beint. „Við getum auðvitað ekki rekið ykkur. Það er ekki hægt fyrr en í næstu kosningum, sem sennilega verða ekki fyrren eftir tvö og hálft ár, þó því megi vissulega breyta. En við, þjóðin, höfum ekki efni á að hafa ykkur á þingi. Við höfum ekki efni á hatrinu ykkar, sem við vitum nú að bullar og sýður undir niðri þó ykkur takist kannski að fela það þegar þið eruð edrú. Þið verðið að segja af ykkur. Bless.“