Flughermar sem endurbjuggu til aðstæðurnar sem að taldar eru hafa valdið því að Boeing 737 Max 8 farþegaþota í Indónesíu hrapaði á síðasta ári leiddi í ljós að flugmenn höfðu einungis 40 sekúndur til að taka stjórnina af biluðu kerfi, að því er fram kemur á vef New York Times.

Um er að ræða flugvél Lion Air sem að hrapaði í október síðastliðnum með þeim afleiðingum að 189 manns létust en indversk yfirvöld telja að galli í stýrikerfi vélarinnar hafi valdið því að skynjari lét stýrikerfi fara í gang sem átti að koma í veg fyrir ofris vélarinnar. Kerfið hafi þannig hugsanlega orðið þess valdandi að flugvélin lækkaði flugið á óeðlilegum tíma.

Í umræddum flughermum, sem sagðir eru hafa verið prófaðir um helgina í frétt NY Times, kemur í ljós að flugmenn höfðu einungis örfáar sekúndur til að slökkva á stýrikerfinu og koma í veg fyrir að vélin steyptist til jarðarinnar samkvæmt ónefndum heimildarmönnum blaðsins.

Í frétt CNN kemur fram að flugmenn frá Southwest Airlines, American Airlines og United Airlines hafi hitt aðila frá Boeing til að fara yfir nýjan hugbúnað fyrir Boeing 737 Max 8 vélarnar en uppfærslurnar miða að því að minni líkur séu á að umrætt kerfi, sem ber heitið MCAS, fari í gang með slíkum afleiðingum. Talið er að flugslysið sem átti sér stað í Eþíópíu megi einnig rekja til umrædds hugbúnaðarkerfis. 

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá hafa bandarísk stjórnvöld auk flugmálayfirvalda í Evrópu og á fleiri stöðum lagt bann við flugi Max 8 vélanna þar til komist er til botns í því hvað nákvæmlega olli flugslysunum en það hefur verið fullyrt að flugvélaframleiðandinn hafi hannað vélarnar í miklum flýti.