Íbúar Kyrrahafsríkisins Nýju-Kaledóníu höfnuðu í dag sjálfstæði frá Frakklandi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Spár höfðu gert ráð fyrir slíkri niðurstöðu en á endanum kusu 56,4 prósent með því að vera áfram undir yfirráðum Frakka en 43,6 prósent á móti. Kosningaþátttaka var 81 prósent.

Þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði landsins var lofað fyrir þrjátíu árum, árið 1988, í kjölfar átaka í landinu á milli Kanaka og afkomenda franskra nýlenduherra. Óttast er að upp gæti sprottið deilur í kjölfar úrslitanna en það hallar mjög á frumbyggja í landinu.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti lýsti yfir ánægju með úrslitin og sagði þau skýrt merki þess að íbúar Nýju-Kaledóníu treystu Frökkum.