Um helgina greindi fréttastofa Stöðvar 2 frá því að karlmaður á fertugsaldri hefði verið ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að ráðast á kvenkyns leigusala sinn í sumar. Árásin á að hafa átt sér stað að morgni 15. júní síðastliðins en þá birtist maðurinn í annarlegu ástandi og vopnaður hnífi á heimili konunnar.

Á hann að hafa hótað konunni lífláti og reynt ítrekað að stinga hana með eggvopninu. Leigusalinn náði að verjast mörgum stungum en hlaut þó alls ellefu skurði og stungu­sár í árásinni. Að lokum tókst fórnarlambinu að gera lögreglu viðvart. Lögreglan þurfti hjálp sérsveitarinnar til að yfirbuga manninn og þurfti meðal annars að beita táragasi og gúmmískotum. Konan er ekki í lífshættu eftir árásina og mun ná fullum bata.

Tveimur mánuðum áður er talið að sami maður hafi svipt annan mann frelsi í nítján klukkustundir og veitt viðkomandi margs konar áverka. Mennirnir þekktust lítillega en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var maðurinn einnig í annarlegu ástandi meðan á ofbeldinu stóð. Var hann haldinn ranghugmyndum þess efnis að kunninginn hefði leitt sig í gildru og valdið sér skaða.

Meðan á frelsissviptingunni stóð beitti maðurinn kunningja sinn margs konar ofbeldi. Meðal annars handleggsbraut hann manninn og braut að auki í honum sex rifbein. Að lokum tókst fórnarlambinu að sannfæra manninn um að hringja í bróður sinn með þeim rökum að viðkomandi væri á bandi gerandans. Svo reyndist ekki vera en bróðirinn hringdi í kjölfarið til lögreglu sem kom á vettvang og handtók gerandann.

Samkvæmt heimildum blaðsins var maðurinn vistaður á réttargeðdeild eftir árásina og átti að dvelja þar í mánuð. Honum var hins vegar sleppt út eftir tæpar þrjár vikur fyrir góða hegðun. Rúmum mánuði síðar réðst hann á leigusala sinn með áðurnefndum afleiðingum.

Maðurinn á langan sakaferil að baki og var á árum áður margsinnis dæmdur fyrir vörslu stera og eiturlyfja auk þess að hljóta dóma fyrir líkamsárásir. Hann hafði afplánað dóma sína og var ekki á sakaskrá þegar ofangreindar árásir eru sagðar hafa átt sér stað.