Hnífs­stungu­á­rásir rúm­lega tvö­földuðust á síðasta ári miðað við fyrri ár, þetta kemur fram í frétt Vísi sem sendu skrif­lega fyrir­spurn á ríkis­lög­reglu­stjóra.

Árið 2020 urðu 23 manns fyrir líkams­tjóni vegna á­rása með egg­vopnum sem er 109 prósenta aukning frá fyrri árum. Á milli 2017 og 2019 lentu á bilinu sjö til ellefu manns í slíkum á­rásum.

Sér­sveit bárust 176 til­kynningar um ein­stak­linga sem voru vopnaðir egg- eða stungu­vopnum í fyrra en á árunum 2017-2019 voru slíkar til­kynningar á bilinu 98-118, sem sam­svarar 50 til 80 prósenta aukningu.

Sér­sveit lög­reglunnar er alltaf kölluð út þegar um er að ræða til­vik þar sem aðili beitir vopni og eiga þessar tölur einungis við um mál þar sem sér­sveit var ræst út.

Aukning egg­vopna­á­rása á­hyggju­efni

„Árið 2020 virðast egg­vopns­á­rásir hafa verið fleiri en að meðal­tali árin á undan. Það er á­hyggju­efni. Það verður að koma í ljós hvort þetta sé þróun sem heldur á­fram, það er erfitt að tala um þróun þegar aukningin á við eitt ár,“ segir í svari lög­reglunnar.

Þá getur árás með egg­vopni valdið miklum á­verkum, með til­tölu­lega litlu á­taki og sam­kvæmt lög­reglunni er það á­hyggju­efni að fólk gangi með slík vopn.

„Það er líka á­hyggju­efni að fólk gangi með vopn á sér, því að öllu eðli­legu ætti það ekki að vera svo að fólk vilji eða finnist það þurfa að bera vopn,“ segir í svarinu.

Fyrir rúmri viku særðist karl­maður um tví­tugt al­var­lega eftir að maður stakk hann með hnífi í kviðinn fyrir utan veitinga­staðinn Fjall­konuna í mið­bæ Reykja­víkur. Maðurinn er á bata­vegi en honum var haldið sofandi á gjör­gæslu í þrjá daga. Hinn grunaði á­rásar­maður situr enn í gæslu­varð­haldi og rann­sókn málsins er í far­vegi. Gæslu­varð­hald yfir manninum rennur út næsta föstu­dag.