Maður vopnaður hnífi réðst að vegfarendum fyrir utan verslun í Numedal í suðurhluta Noregs í morgun. Þrír eru særðir eftir árásina, þar af einn alvarlega.
Lögregla var með mikinn viðbúnað á vettvangi en rannsókn málsins er á frumstigi. Hinn grunaði var handtekinn af lögreglu nokkrum mínútum eftir að tilkynnt var um árásina.
NRK hefur eftir sjónarvottum að einn maður hafi ráðist að öðrum og hópur fólks hafi reynt að stöðva manninn. Ekki liggur fyrir hvort árásarmaðurinn hafi valið fólk af handahófi eða hvort hún hafi beinst að ákveðnum aðila eða aðilum.