Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur telur að hneykslismálið sem hefur leitt til brottrekstrar og í það minnsta tímabundinna starfsleyfa fimm karla vegna ásakana um kynferðisbrot gagnvart Vítalíu Lazareva kunni að hafa skaðleg áhrif á Sjálfstæðisflokkinn.

Ísey vék Ara Edwald frá störfum um helgina vegna málsins. Áður höfðu fjórir aðrir karlar stigið til hliðar eða verið sendir í leyfi. Flestir karlanna hafa haft einhverjar tengingar við Sjálfstæðisflokkinn.

Þá hefur umdeilt „læk“ Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra orðið að fréttaefni.

Spurður um pólitísk áhrif málsins rifjar Ólafur Þ. Harðarson upp Klaustursmálið. Fylgi Miðflokksins hafi fyrst eftir að það kom upp minnkað um helming, braggast á ný en hrunið í kosningunum 2021.

„Kannski átti Klaustursmálið þátt í fylgishruni Miðflokksins, þó margar aðrar skýringar séu hugsanlegar,“ segir Ólafur.

Málin tvö eiga sameiginlegt að niðrandi framkoma gagnvart konum vakti reiði almennings í báðum tilfellum.

„Það er hugsanlegt,“ segir Ólafur, spurður hvort málið muni skaða Sjálfstæðisflokkinn.

„Augljóslega hjálpar þetta ekki flokknum. Spurningin er hvort málið hefur áhrif á einhverja stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks. Viðhorf þeirra eru ekki endilega þau sömu og viðhorf stuðningsmanna annarra flokka,“ bætir hann við.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur telur að afleiðingarnar verði fremur persónubundnar fyrir hlutaðeigandi en að málið skaði Sjálfstæðisflokkinn.

„Það er ekki hægt að yfirfæra þetta mál yfir á heilan stjórnmálaflokk.“

Stefanía segir að málið kunni aftur á móti að hafa almenn áhrif á valdastöðu miðaldra karla í stjórnunarstöðum.

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir að hann átti sig ekki á hugsanlegum pólitískum áhrifum málsins. Það muni mjög mögulega skaða flokkinn til skamms tíma en þar sem viðkomandi teljist ekki sjálfir til forystu flokksins sé óvíst að miklar langtímaafleiðingar verði af því.