Hafinn hefur verið undir­skriftar­söfnun til stuðnings hinum 22 ára gamla U­hunoma Osa­yomor­e þar sem biðlað er til stjórn­valda um að veita honum al­þjóð­lega vernd af mann­úðar­sjónar­miðum á Ís­landi. Vinur Uhunoma segir að hann falli á milli einfaldra skilgreininga Útlendingastofnunar. Lögmaður mannsins segir skammarlegt hvernig komið sé fram við fórnarlömb mansals og kynferðisofbeldis.

Kæru­nefnd Út­lendinga­mála hefur áður synjað U­hunoma um dvalar­leyfi. Hann flúði heimili sitt sex­tán ára gamall vegna al­var­legs of­beldis og of­sókna af hálfu föður síns. Hann glímir nú við al­var­leg and­leg veikindi.

Flúði föður sinn en endaði hjá þræla­höldurum

Ívar Pétur Kjartans­son, vinur U­hunoma, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að við­brögð við undir­skriftar­söfnuninni hafi verið góð. Nú þegar hafi rúm­lega fimm þúsund manns skrifað undir, á þeim tólf tímum sem söfnunin hefur staðið yfir.

„Við erum hópur fólks sem erum vinir hans og viljum ekki missa hann úr lífi okkar. Þetta gerðist svo­lítið hratt. Allt í einu bankaði lög­reglan upp á hjá honum í gær­morgun vegna undir­búnings á brott­vísun, ef við skildum þetta rétt,“ segir Ívar.

Hann út­skýrir að U­hunoma hafi upp­runa­lega ekki einu sinni ætlað að flýja Nígeríu, heldur til Lagos, höfuð­borgar landsins. Hann hafi fljót­lega lent í höndunum á þræla­sölum sem seldu hann til Líbíu, einungis 16 ára gamlan. Ívar út­skýrir að að­stæður þar séu með versta móti og sjö mánuðir því gríðar­lega langur tími. Þaðan hafi hann flúið á fleka og stefnt til Ítalíu.

Flekinn sökk og var U­hunoma bjargað í land, meðan margir far­þega drukknuðu. Á Ítalíu eyddi hann svo þremur árum á ver­gangi í mis­munandi flótta­manna­búðum. Hann hafi náð að safna sér pening og sett stefnuna á Ír­land, en fyrir slysni endað á Ís­landi í októ­ber 2019, þá rúm­lega tví­tugur.

Ekki ein­föld töl­fræði á blaði

Ívar út­skýrir að U­hunoma sé flokkaður sem full­orðinn, ein­hleypur karl­maður, frá landi þar sem er ekki stríð. Flokkur fólks, sem sam­kvæmt skil­greiningu Út­lendinga­stofnunar, er ó­lík­legast að fái al­þjóð­lega vernd hér á landi. Hann bendir á að hlutirnir séu ekki svo ein­faldir í til­viki U­hunoma.

„Hann var ekki full­læs á þessum tíma og kaupir sér því miði fyrir slysni til Ís­lands. Þannig að þessi narratíva um ein­hleypa full­orðna menn sem vilja koma til Ís­lands og lifa á kerfinu er ekki svona ein­föld, því það var ekki planið hjá honum,“ út­skýrir Ívar. Þar hafi U­hunoma ein­fald­lega verið að reyna að bjarga sér.

U­hunoma á nú fjöl­skyldu hér á landi og segir Ívar að þau rói öllum árum að því að koma í veg fyrir að hann verði sendur úr landi. Hann vilji fá að vinna og eiga hér gott líf.

„Fjöl­skyldan reyndi að fá að ætt­leiða hann, en mega auð­vitað ekki ætt­leiða full­orðinn mann,“ segir Ívar. Hópurinn hafi því séð þess einan kost að vekja at­hygli á sögu U­hunoma.

„Af því að hann er í þessum hópi sem á minnstan mögu­leika á land­vistar­leyfi, öllu jöfnu. Og við viljum koma því til skila að þetta er ekki alveg svona ein­föld töl­fræði á blaði, og að þarna sé bara full­orðinn maður sem að geti bjargað sér.“

Þetta er vinur minn Uhunoma. Ég ætla að reyna að að vera stuttorður og skýr. Uhunoma er 21 árs gamall. Frá...

Posted by Ívar Pétur Kjartansson on Thursday, 4 February 2021

Nígería rang­lega talið öruggt ríki

Magnús D. Norð­dahl, lög­maður mannsins, segir mat nefndarinnar um að U­hunoma verði öruggur í heima­landi og geti þar fengið við­undandi að­stoð vegna veikinda sinna, hrein­lega rangt. Hann segir al­þjóð­legar skýrslur taka af öll tví­mæli um hversu slæmt á­standið þar er.

„Sem dæmi má nefna að fjöldi geð­lækna í Nígeríu er einungis 300 talsins en heildar­fjöldi íbúa rúmar 200 milljónir. Það er sam­bæri­legt við að einn stakur geð­læknir í hálfu starfi myndi sinna allri ís­lensku þjóðinni,“ segir Magnús.

„Þá hafa fórnar­lömb mansals litla sem enga mögu­leika á því að leita til lög­reglu­yfir­valda vegna land­lægrar spillingar og sinnu­leysis lög­reglu í garð þessa hóps.
Mat ís­lenskra stjórn­valda á að­stæðum mansals­fórnar­lamba í Nígeríu er ó­for­svaran­legt og rangt.“

Magnús bendir á að mál U­hunoma sé eitt mál margra þar sem fórnar­lömbum mansals og kyn­ferðis­of­beldis sé synjað um hæli hér á landi. „Það er á­kaf­lega sorg­leg þróun og ekki í takt við þær á­herslur nú­verandi stjórn­valda á mann­réttindi og vernd þeirra sem hafa orðið fyrir of­beldi af þessu tagi.“

Þá bendir Magnús á að kæru­nefndin hafi jafn­framt synjað U­hunoma um frestun réttar­á­hrifa sem felur í sér að nefndin vill að honum verði komið úr landi með valdi áður en honum gefist tæki­færi til að bera mál sitt undir dóm­stóla.

„Það er að mínu á­liti klárt brot á stjórnar­skár­vörðum rétti borgaranna að að þeim sé vísað úr landi áður en dóm­stólar hafa fjallað um rétt­mæti máls­með­ferðarinnar sem þeir máttu sæta,“ segir Magnús. Málið sé á leiðinni til Héraðs­dóms Reykja­víkur á næstu dögum og þá verði endur­upp­töku­beiðni einnig send á kæru­nefndina.

„Ég trúi því og vona að mál þetta fái far­sælan endi. Fram­ferði stjórn­valda í þessu máli og öðrum keim­líkum er and­stætt þeim grunn­gildum sem við stöndum fyrir sem þjóð. Þessu þarf að linna.“

Enn og aftur þarf að vekja athygli almennings á ótilhlýðilegri málsmeðferð stjórnvalda í málum hælisleitenda, nú í...

Posted by Magnús Davíð Norðdahl on Thursday, 4 February 2021