Gera þurfti hlé á sýningu Rómeó og Júlíu um skamma stund í Þjóð­leik­húsinu í gær eftir að leik­hús­gestur féll í yfir­lið undir lok sýningarinnar. Þetta stað­festir Magnús Geir Þórðar­son, Þjóð­leik­hús­stjóri, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Um var að ræða konu en læknir meðal gesta kom henni til að­stoðar. Betur fór en á horfðist og gekk konan sjálf út úr salnum þó sjúkra­bíll væri mættur á staðinn til að­stoðar. Henni heilsast nú vel að sögn Magnúsar og líðan hennar var orðin betri innan við hálf­tíma síðar.

Magnús segir að­spurður sessu­nauta konunnar hafa beðið eftir að­stoð. „Og leikararnir og starfs­lið brást hár­rétt við, stöðvuðu sýninguna og að­stoðuðu.“

Þegar því var lokið var á­kveðið að halda á­fram með sýninguna, sem um tíu mínútur voru eftir af. „Og sýningunni lauk með fagnaðar­látum og standandi lófa­klappi eins og venja er, svo þetta rændi á­horf­endur ekki gleðinni þó þau hefðu stoppað og að­stoðað.“

Magnús var sjálfur á sýningu hinu­megin við götuna í Kassa Þjóð­leik­hússins á frum­sýningu Ástu og var ekki við­staddur. „En þetta var yfir­vegað og mikil sam­staða og sam­hugur á­horf­enda og starfs­fólks,“ segir Magnús. Mikil­vægast af öllu sé að allt hafi farið vel.