Íslenskir stuðningsmenn eru beðnir að hafa varann á þegar kemur að farsímanotkun í Rússlandi. Póst- og fjarskiptastofnun bendir fólki á að Rússland sé ekki aðili að reglugerðum Evrópusambandsins um reikiþjónustu farsíma.

Þannig sé verð fyrir farsímanotkun töluvert hærra en innan EES-svæðisins og engin verðþök á gjöld fyrir almenna farsímaþjónustu. Að sama skapi gildir ekki 50 evru hámark sem sett er á reikikostnað sem ver alla jafna neytendur fyrir háum reikningum innan EES-svæðisins.

Bendir stofnunin því ferðalöngum sem eru á leið til Rússlands að hafa samband við farsímafyrirtæki sitt og fá ráðleggingar um hvernig er best að haga farsímanotkun sinni á ferðalögum þar, bæði hvað varðar símtöl, SMS og gagnamagn.