Í dag mun kalda norðlæga áttin veikjast mjög og hverfa austur af landinu með kaldasta loftið með sér. Það verður norðvestan 3-8 metrar á sekúndu en 8 til 13 metrar á sekúndu austast.

Samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings verður áfram bjart og fallegt veður syðra en skýjað með köflum norðantil og þá einkum norðaustan- og austanlands. Hiti verður á bilinu 3 til 15 stig og mildast syðst.


Á morgun snýst til sunnanáttar og þykknar upp um landið vestanvert og er viðbúið að einhverrar vætu verði vart vestast á landinu. Þá verður víða bjartviðri fyrir norðan og austan og fer að hlýna á þeim slóðum.

Nýjustu spár benda til að vindáttin verði suðlæg næstu daga þar á eftir með þokkalega hlýju lofti, en rigni af og til vestast á landinu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:
Suðlæg átt 5 til 13 metrar á sekúndu og víða rigning, en þurrt á norðaustanverðu landinu fram eftir degi. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á þriðjudag:
Vestlæg eða breytileg átt 3-8 metrar á sekúndu, skýjað og sums staðar smáskúrir. Hiti 8 til 15 stig.

Á miðvikudag:
Suðaustan 3-8 metrar á sekúndu, og bjartviðri, en skýjað austanlands. Hiti 12 til 18 stig, en 8 til 12 stig á Austurlandi.

Á fimmtudag:
Sunnanátt og dálítil væta, en úrkomulítið norðan- og austanlands. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast á norðausturlandi.

Á föstudag:
Útlit fyrir sunnanátt með rigningu sunnan- og vestan til á landinu.