„Magnað að sex konur, sem þekkja mig ekki persónulega, skuli setja Like á þessa umsögn sem er sett inn af fake profile,“ segir Hlynur Kristinn Rúnarsson um umsögn sem birtist á Facebook síðu samtakanna Það er von.

Hlynur Kristinn stofnaði góðgerðasamtökin Það er von með því markmiði að útrýma fordómum í samfélaginu svo fólk með fíknisjúkdóm þori að leita sér hjálpar.

„Þessi maður er hrottalegur ofbeldismaður.“

Hlynur er með forvarnarstarf og heldur fyrirlestra í menntaskólum en hann hefur verið edrú í þrjá mánuði að því er fram kemur í helgarviðtali Mannlífs.

Ónefndur aðili með gervi-„prófíl“ á Facebook skrifaði neikvæða umsögn á Facebook síðu samtakanna.

„Menntaskólar athugið: Þessi maður er hrottalegur ofbeldismaður. Hlynur hefur beitt alla sína fyrrum maka lífshættulegu ofbeldi og ekki enn tekið ábyrgð á því eða reynt að biðja þolendur sína fyrirgefningar þrátt fyrir að vera veitt skýr tækifæri til þess nú í edrúmennskunni. Hið gagnstæða hefur átt sér stað og ennþá í dag segir hann þær hafa látið sig gera það (beita þær ofbeldinu). Hann er enn þá hættulegur einstaklingur, veikur í hugsun og þarf að fyrirbyggja að hann komist eitthvað nálægt börnum í menntaskóla eða öðrum viðkvæmum hópum,“ skrifar aðilinn á Facebook.

„Ég hef nú þegar axlað ábyrgð“

Hlynur segist hafa nú þegar beðist afsökunar á umræddu ofbeldi.

„Bæði er umsögnin gerð til þess að skemma fyrir manni og til þess að sverta mannorð mitt en ég er ekki ofbeldismaður. Þótt ég hafi verið á slæmum stað með sjálfan mig og oft verið leiðinlegur.. sem ég hef nú þegar axlað ábyrgð á og beðist afsökunar á,“ skrifar Hlynur á Facebook.

Búið er að eyða öllum „reviews“ á Facebook síðu Það er von.
Skjáskot af Facebook.

Handtekinn fyrir fíkniefnasmygl

Hlynur hlaut fimm ára fangelsisdóm í Brasilíu eftir að hann var handtekinn í borginni Fortaleza fyrir fíkniefnasmygl árið 2015. Hann hafði reynt að smygla umtalsverðu magni af kókaíni ásamt þáverandi kærustu sinni, Birgittu Gyðu Bjarnadóttur.

Þau áfrýjuðu bæði dómnum og höfðu sigur og var sá tími sem þau áttu eftir að sitja af sér skilorðsbundinn. Voru þau látin laus úr fangelsi árið 2017.

Hlynur er þekktur fyrir umdeilda pistla sem hann hefur birt á Menn.is og á Facebook. Hann hafði meðal annars þetta að segja um Free The Nipple byltinguna: „Vill hreint út þakka íslenskum stelpum fyrir að bomba þeim inná netið svo maður þurfi ekki að skilja neitt eftir fyrir ímyndunaraflið.“