Lofts­lags­hlýnun í Norður-Barents­hafi er allt að sjö sinnum meiri en meðal­hlýnun jarðar. Þetta kemur fram í nýrri rann­sókn sem birt var í ritinu Scientific Reports í gær.

Mögu­legt er að mikil hlýnun á þessu svæði geti leitt til aukins ham­fara­veðurs í Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu. Rann­sak­endur telja niður­stöðurnar vera fyrir­boða um hvernig hlýnun gæti orðið á Norður­skautinu öllu.

Áður hefur verið sýnt fram á að hlýnun á Norður­skautinu er að meðal­tali tæp­lega þrisvar sinnum meiri en á hnatt­rænt meðal­tal. Á árunum 2001 til 2020 var að meðal­tali 0,32 gráðu hlýnun í heiminum á ára­tug.

Meðal­hlýnun á Norður­skautinu var 0,86 gráður á ára­tug á sama tíma. Þar sem hlýnun var mest, í eyjunni Karl XII-øja, var hlýnunin að meðal­tali 2,71 gráður á ára­tug. Á haustin var hlýnunin mest, eða um fjórar gráður á ára­tug.

Meðal hækkun á áratug frá árunum 2001 til 2020 á mismunandi svæðum Norðurskautsins. Hækkun er mest í Norður-Barentshafi.
Mynd/The Guardian

Hækkunin í Norður-Barents­hafi var að meðal­tali tvisvar til 2,5 sinnum meiri á ára­tug en meðal­tal Norður­skautsins og fimm til sjö sinnum meiri á ára­tug en meðal­tal heimsins.

Meðal­hita­stig á Norður­skautinu hefur hækkað mikið á undan­förnum árum og ára­tugum. Vísinda­fólk hefur margt lýst yfir á­hyggjum yfir stöðunni en hækkunin er hvergi meiri í heiminum.

Rann­sak­endur benda á að með bráðnun sjávar­íss hefur orðið á­kveðið svörunar­kerfi á svæðinu. Sólar­geislar hita sjóinn beint, sem er dökkur og án skjóls frá hvítum ís­hellum sem hefðu annars endur­speglað eitt­hvað af geislunum. Á móti hlýjar heitur sjórinn and­rúms­loftið þar sem engar ís­hellur skilja haf frá himni.