Hlýnun á norðurslóðum heldur áfram að aukast hraðar en meðalhitastig jarðarinnar.

Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands, segir hlýnunina á þessu svæði helst hafa áhrif á lífríkið, hvort sem það er á landi eða hafi.

Samspilið sé mikið þar á milli og að tenging sé á milli fuglalífs sem lifa á fiski og sjávardýrum. „Það eru mjög miklar breytingar sem við sjáum í hafinu sem eru mjög slæmar.“

Í lok maí fór fram níundi fundur Arctic Climate forum en á fundinum komu saman fulltrúar Íslands, Bandaríkjanna, Kanada, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og Rússlands.

Náði hámarki tveimur vikum fyrr

Anna Hulda sá um að kynna niðurstöður fyrir árstíðabundið yfirlit á fundinum sem og horfur á hitastigi og úrkomu fyrir Vestnorræna svæðið.

Í samantekt samráðsfundarins kemur fram að veturinn 2022 hafi útbreiðsla norðurskautsíssins náð hámarki tveimur vikum fyrr en á meðalári.

Útbreiðsla norðurskautsíssins hafi farið minnkandi á hverjum vetri tíu ár í röð sé horft til mælinga á útbreiðslu norðurskautsíssins frá árinu 1979.

Þá segir jafnframt að á síðasta áratugi hafi meðalhiti flestra ára verið með því sem mest var á tímabilinu 1900 til dagsins í dag.

Ekki skipti máli hvort um sumar eða vetur ræðir, það sé þó vissulega verulegur breytileiki á milli ára, sér í lagi á kuldatímabilum.

Víðtæk áhrif hærra hitastigs

Anna Hulda segir bráðnun á Suðurskautinu hafa meiri áhrif á hækkun sjávar hér á landi heldur en á norðurslóðum. „Einfaldlega vegna þess að massinn á hnettinum hann breytist ef það bráðnar meira hinum megin við okkur.“

Aðspurð um áhrif hnattrænnar hlýnunar segir Anna Hulda áhrifin rosalega víðtæk, sem dæmi nefnir hún fjölda veðurviðvarana í febrúar síðastliðinn hér á landi. „Það verður styttra á milli og oftar öfga veður.“

Anna Hulda segir hlýnun á norðurslóðum hækka sjávarstöðu vegna bráðnunar, áhrifin sjáist einnig á hafstraumum og hafi áhrif á súrefni í jarðvegi sem og súrnun sjávar, „sem er að gerast hraðar á þessu svæði en annars staðar í heiminum og það er náttúrulega rosa stórt áhyggjuefni fyrir okkur.“

Fjölbreytileiki geti glatast

Að sögn Önnu Huldu birtast áhrifin á lífríkinu, „við getum ekki einu sinni alveg séð fyrir okkur áhrifin sem þetta kann að hafa. Þetta hefur mismunandi áhrif á vistkerfin og við getum glatað ákveðnum fjölbreytileika.“

Aðspurð hvað valdi hraðari hlýnun á norðurslóðum en annars staðar í heiminum segir Anna Hulda það verða flókið samspil margra þátta.

Anna Hulda segist aðspurð Íslendinga mega búast við aukningu í veðurviðvörunum á næstu árum og þá allar gerðir ofsaveðra.