Donald Trump, forseti Bandaríkjann, segist vera hlynntur hertri löggjöf um þungunarrof. Hann kveðst einnig mjög hlynntur hinni svokölluðu Pro-Life-hreyfingu sem berst gegn því að konur gangist undir þungunarrof.

Í færslu sem forsetinn birti á Twitter segir hann að hann sé andvígur þungunarrofi nema í þremur undantekningartilvikum. Ef um er að ræða nauðgun, sifjaspell eða þá að meðgangan ógni lífi móðurinnar.

Hreyfing fyrir auknum ákvörðunarrétti kvenna hefur boðað mótmæli í dag í kjölfar laga sem sett hafa verið í ríkjum Bandaríkjanna, til að mynda Alabama. Sextán ríki eru með það á dagskrá að herða löggjöfina um þungunarrof.

Ætla má að löggjöfin í Alabama rati alla leið fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna og að þar verði látið reyna á sögulegan Roe v. Wade-dóm frá árinu 1973 sem veitti konum rétt til að ákveða hvort þær vildu gangast undir þungunarrof í Bandaríkjunum.

Landslagið er breytt í Hæstarétti með tilkomu nýrra dómara. Íhaldssamir dómarar eru nú í meirihluta við réttinn og er talið að látið verði reyna á áðurnefndan Roe v. Wade-dóm.