Við höfum alltaf haft áhuga á garðrækt og hönnun og höfum átt margar ánægjustundir við vinnu í garðinum okkar,“ segir Vilborg.

„Þegar við fluttum hingað var við húsið lítill pallur úr mótatimbri, sem var að molna niður. Við fjarlægðum þann pall og byggðum aðeins stærri árið 2014.

Grindverkið við pallinn er grámálað með litnum Labrador, en pallurinn sjálfur er í Naturgrå, báðir litir fást í Húsasmiðjunni. Mottan er úr Blómavali.

Vilborg og eiginmaður hennar, Þórólfur Beck, vildu stækka pallinn alveg að næsta húsgafli og koma fyrir heitum potti.

„Ég rissaði niður á blað hugmynd sem ég hafði að pallinum og verð að viðurkenna að maðurinn minn sendi mér svip þegar ég sýndi honum hvernig ég vildi hafa þetta,“ segir Vilborg í léttum tón.

Leið eins og Indiana Jones


Það voru töluverðar framkvæmdir nauðsynlegar til að geta látið hugmyndirnar rætast og þurfti að fjarlægja mikið af trjám og skrautplöntum, og þar sem aðgengið að pallasvæðinu var erfitt þurftu þau hjón að handgrafa fyrir honum.

„Nágrannar okkar í næstu fjórum húsum nutu góðs af þessu og fengu mold í beðin sín frá uppgreftrinum. Það var ýmislegt sem kom upp úr jörðinni og okkur leið svolítið eins og Indiana Jones, þegar við grófum upp hluti eins og Spur- og Miranda-flöskur, íslenskt brennivín, sígarettupakka, vinnuhanska og peninga frá árinu 1978.“

Þegar þau svo héldu að undirbúningnum væri loks lokið, komu þau niður á hart undirlag.

„Þá kom í ljós heil stæða af timbri frá 1978, það var aðeins ysta lagið sem var ónýtt, svo maðurinn minn gat notað hluta timbursins og restin fór til nágranna.“

Vilborg vildi að tröppurnar að pottinum nýttust jafnframt sem sæti.

Vilborgu langaði að hafa pallinn óhefðbundinn og útbúa bæði tröppur og geymslukassa sem einnig nýttust sem sæti.

„Ég lagði líka áherslu á að hafa gróður inni á pallasvæðinu til að skapa hlýleika,“ segir Vilborg sem í gegnum árin hefur einnig safnað hlutum sem skreyta pallinn og segir þá alls ekki þurfa að vera dýra.

„Ég hef oft keypt ódýra hluti, kannski eru þeir ekki í þeim lit sem mér líkar, en þá breytir maður því bara,“ segir hún og bætir við að lýsingin skipti einnig miklu máli.

Dugleg að breyta til


Þau hjónin breyta oft uppröðun húsgagna og hafa leikið sér að því að breyta litasamsetningu á pallinum.

„Árið 2016 ákvað ég að skoða það hvaða litir voru í boði á pallinn, aðrir en þessu hefðbundnu. Við vorum þreytt á því að þurfa að bera á pallinn tvisvar á ári, en við höfðum notað hefðbundna pallaolíu, sem virkaði ekki vel í Keflavík. Ég fann palla-beis frá Jötun, meðhöndlun á því er allt önnur en á venjulegri pallaolíu, en maður ber á eina spýtu og þurrkar síðan af. Síðar fundum við út að þetta efni hentar mun betur, þó að grunnvinnan sé tímafrekari, þá er endingin mun betri eða um þrjú til fjögur ár. Ég ákvað að velja ljósan lit og var það algjör andstæða þess sem við vorum með á pallinum fyrr, þvílíkur munur, svæðið allt varð miklu meiri aðlaðandi og meira kósí.“

Tjaldið er úr Ikea en sófi, stóll, púðar og borð undir því, úr Bauhaus. Hinir stólarnir og gærurnar sem skreyta þá eru úr Rúmfatalagernum.