„Það sem við sjáum núna fram í tímann þá virðist sem svo að það sé nokkuð hlýtt á næstu dögum. Það gæti hins vegar fækkað dögunum þar sem það verður tuttugu stiga hiti,“ segir Eiríkur Örn Jóhannsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, aðspurður hvort að rjómablíðan sem hefur einkennt hluta Íslands undanfarnar vikur sé á förum þegar september er genginn í garð.

„September hefur undanfarin ár, sérstaklega framan af, ekkert verið langt frá júnímánuði í meðalhitastigi. Þó að sólin sé ekki jafn hátt á lofti og hitinn nái ekki sömu hæðum er sjórinn orðinn heitari og meðaltölin eru ekkert langt frá því sem þekkist í júní.“