Það virðist vera sem það fína veður sem búist er við nú um helgina víki fyrir frosti og kulda í næstu viku. Þetta segir Þorsteinn V. Jónsson vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Það er eins og þetta sé að fara í norðanátt þegar líður á vikuna með kaldari veðrum og éljum fyrir norðan og austan,“ segir Þorsteinn. „Það er enn þá smá óvissa í spánum.“

Vegagerðin varaði við lúmskri hálku í gærkvöldi og nótt en Þorsteinn býst við að veðrið verði fínt um allt land um helgina.

Hann er þó ekki jafnbjartsýnn fyrir næstu viku, þar sem hitastigið stefnir niður fyrir frostmark.

„Hlýindunum virðist vera lokið í bili,“ segir hann.

Hlýindin í nóvember hafa verið eftirtektarverð. Meðal annars hafa bændur á Tjörnesi getað sinnt girðingarvinnu, sem er fáheyrt.