Samfylkingin mun á næstu dögum leggja fram heildstæða áætlun sína um það hvernig Ísland getur leyst þann atvinnuleysisvanda sem hefur skapast vegna heimsfaraldursins. Formaður flokksins, Logi Einarsson, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld að hlutverk Samfylkingarinnar væri að leiða saman þau öfl sem væru til í að fylkja sér um vinnu, velferð og græna framtíð með því að mynda græna félagshyggjustjórn eftir næstu þingkosningar.
„Við stöndum nú frammi fyrir óvenju flóknum verkefnum sem verða ekki leyst öll á einni svipstundu. En fyrsta skrefið er að skipta um kúrs, snúa skútunni frá hægri og hrista af okkur gamaldags kreddur um það hvernig ríkisfjármál virka og hvernig verðmæti verða til,“ sagði Logi meðal annars í ræðu sinni. „Á svona tíma höfum við einfaldlega ekki efni á því að leyfa hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins eða fjármálastefnu hægrimanna að ráða för. Það er einfaldlega allt of mikið í húfi.“
„Hugmyndir hægrimanna um að reglulítill markaður greiði sjálfur úr öllum vandamálum og skili þar að auki almenningi réttmætum gæðum dæma sig nú endanlega sjálfar.“
Hann sagði þá lausnir jafnaðarstefnunnar vera þær sem ríkisstjórnin um heim allan, bæði vinstri- og hægristjórnir, litu til í baráttu sinni við heimsfaraldurinn. Þær byggðu á samspili opinberra umsvifa og einkaframtaksins. „Ábyrga leiðin út úr atvinnuleysiskreppunni felst í því að fjölga störfum hratt, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera um allt land, efla velferð og reisa nýjar grænar stoðir undir framtíð verðmætasköpunar.“
Áætlun Samfylkingarinnar um hvernig hægt verður að minnka atvinnuleysi, sem verður kynnt á næstu dögum, mun samkvæmt Loga fela í sér markvissari vinnumarkaðsaðgerðir en þær sem ríkisstjórnin hefur kynnt. Hann vill að atlaga sé gerð gegn undirmönnun almannaþjónustunnar og að meira sé þannig fjárfest í heilbrigðisþjónustu og menntun.
Ísland með veikari markmið en nágrannalöndin
Að lokum ræddi Logi loftslagsvandann og sagði að ekkert minna dygði í baráttu við hann en „raunveruleg“ græn atvinnubylting og gaf þannig lítið fyrir fyrirheit forsætisráðherrans um aðgerðir í loftslagsmálum: „Það er ódýrt að heyra forsætisráðherra tala um „græna byltingu“ þegar hún leggur sama dag fram fjárlög og fjármálaáætlun sem gefa engin fyrirheit um slíkt,“ sagði Logi.
„Það er ekki græn bylting þegar Ísland setur sér veikari loftslagsmarkmið en Danmörk og Noregur. Það er ekki græn bylting þegar losun gróðurhúsalofttegunda eykst ár frá ári á vakt þessarar ríkisstjórnar og það er ekki græn bylting þegar ríkið ver minna en einu prósenti af vergri landsframleiðslu til loftslagsaðgerða.“