Sam­fylkingin mun á næstu dögum leggja fram heild­stæða á­ætlun sína um það hvernig Ís­land getur leyst þann at­vinnu­leysis­vanda sem hefur skapast vegna heims­far­aldursins. For­maður flokksins, Logi Einars­son, sagði í um­ræðum um stefnu­ræðu for­sætis­ráð­herra í kvöld að hlut­verk Sam­fylkingarinnar væri að leiða saman þau öfl sem væru til í að fylkja sér um vinnu, vel­ferð og græna fram­tíð með því að mynda græna fé­lags­hyggju­stjórn eftir næstu þingkosningar.

„Við stöndum nú frammi fyrir óvenju flóknum verk­efnum sem verða ekki leyst öll á einni svipstundu. En fyrsta skrefið er að skipta um kúrs, snúa skútunni frá hægri og hrista af okkur gamal­dags kreddur um það hvernig ríkis­fjár­mál virka og hvernig verð­mæti verða til,“ sagði Logi meðal annars í ræðu sinni. „Á svona tíma höfum við einfaldlega ekki efni á því að leyfa hug­mynda­fræði Sjálf­stæðis­flokksins eða fjár­mála­stefnu hægri­manna að ráða för. Það er ein­fald­lega allt of mikið í húfi.“

„Hugmyndir hægri­manna um að reglu­lítill markaður greiði sjálfur úr öllum vanda­málum og skili þar að auki almenningi réttmætum gæðum dæma sig nú endan­lega sjálfar.“

Hann sagði þá lausnir jafnaðar­stefnunnar vera þær sem ríkis­stjórnin um heim allan, bæði vinstri- og hægri­stjórnir, litu til í bar­áttu sinni við heims­far­aldurinn. Þær byggðu á sam­spili opin­berra um­svifa og einka­fram­taksins. „Á­byrga leiðin út úr at­vinnu­leysis­kreppunni felst í því að fjölga störfum hratt, bæði í einka­geiranum og hjá hinu opin­bera um allt land, efla vel­ferð og reisa nýjar grænar stoðir undir fram­tíð verðmætasköpunar.“

Á­ætlun Sam­fylkingarinnar um hvernig hægt verður að minnka at­vinnu­leysi, sem verður kynnt á næstu dögum, mun sam­kvæmt Loga fela í sér mark­vissari vinnu­markaðs­að­gerðir en þær sem ríkis­stjórnin hefur kynnt. Hann vill að atlaga sé gerð gegn undir­mönnun al­manna­þjónustunnar og að meira sé þannig fjár­fest í heil­brigðis­þjónustu og menntun.

Ísland með veikari markmið en nágrannalöndin

Að lokum ræddi Logi lofts­lags­vandann og sagði að ekkert minna dygði í bar­áttu við hann en „raun­veru­leg“ græn at­vinnu­bylting og gaf þannig lítið fyrir fyrir­heit for­sætis­ráð­herrans um að­gerðir í lofts­lags­málum: „Það er ó­dýrt að heyra for­sætis­ráð­herra tala um „græna byltingu“ þegar hún leggur sama dag fram fjár­lög og fjár­mála­á­ætlun sem gefa engin fyrir­heit um slíkt,“ sagði Logi.

„Það er ekki græn bylting þegar Ís­land setur sér veikari lofts­lags­mark­mið en Dan­mörk og Noregur. Það er ekki græn bylting þegar losun gróður­húsa­loft­tegunda eykst ár frá ári á vakt þessarar ríkis­stjórnar og það er ekki græn bylting þegar ríkið ver minna en einu prósenti af vergri lands­fram­leiðslu til lofts­lags­að­gerða.“