Landskjörstjórn lauk nú á sjöunda tímanum í kvöld fundi sínum þar sem farið var yfir skýrslur yfirkjörstjórna í hverju kjördæmi fyrir sig en að sögn formanns landskjörstjórnar hefur ekki borist staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis um að meðferð kjörgagna hafi verið með fullnægjandi hætti.

„Ekki hefur borist staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis á að meðferð og varðveisla kjörgagna á talningastað í kjördæminu hafi verið fullnægjandi,“ sagði Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, þegar hún las upp yfirlýsingu stjórnarinnar fyrir skömmu.

„Í samræmi 46. grein stjórnarskrárinnar er það hlutverk Alþingis að úrskurða um gildi kosninga og kjörgengi Alþingismanna,“ sagði hún enn fremur í yfirlýsingunni en landskjörstjórn mun gera grein fyrir vinnu sinni á fundi sem verður haldinn í samræmi við 106. grein kosningalaga þann 5. október næstkomandi.

Hún vildi ekki svara spurningum fréttamanna eftir að hafa lesið yfirlýsinguna og sagði einfaldlega að nú væri það Alþingis að taka afstöðu um gildi kosninganna. Meira hefði hún ekki að segja um málið á þessu stigi þar sem upplýsingaöflun landskjörstjórnar væri nú lokið.

Ákveðið var að óska eftir skýrslum frá öllum yfirkjörstjórnum í hverju kjördæmi fyrir sig eftir að mistök komu í ljós við endurtalningu í Norðvesturkjördæmi, sem varð til þess að fimm þingmenn duttu út og aðrir fimm komu inn.

Framkvæmd talninga í kjördæminu hefur verið kærð til lögreglu og landskjörstjórnar en Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í kjördæminu, hefur þvertekið fyrir það að um brot á kosningalögum hafi verið að ræða.

Þá var ákveðið að ráðast í endurtalningu í Suðurkjördæmi í gærkvöldi eftir beiðni frá nokkrum flokkum en ekkert athugavert kom í ljós við endurtalningu þar og standa lokatölur í því kjördæmi.

Fréttin hefur verið uppfærð.