Brak úr eld­flaug sem kom hluta af nýrri geim­stöð Kína á spor­braut féll í hafið rétt við Filipps­eyjar að sögn kín­verskra stjórn­valda. Al Jazeera greinir frá.

Stærstur hluti lokastigs Long March-5B eld­flaugarinnar brann upp eftir að hafa farið inn í loft­hjúp jarðar, að því er China Manne­d Space Agen­cy stofnunin greindi frá í til­kynningu í gær.

Stofnunin hafði áður gefið út að brakið fengi að hrapa stjórn­laust til jarðar.

Þá gáfu þeir ekkert upp um hvort brakið myndi falla á land eða sjó, en sögðu að lendingar­svæðið væri á 119 gráðu austur­lengdar og 9,1 gráðu norð­lægrar breiddar. Það er haf­svæði suð­austur af Filipps­eysku borginni Puer­to Princesa á eyjunni Palawan, en stjórnvöld á Filipps­eyjum hafa enn sem komið er ekki gefið út upp­lýsingar um hvort brakið hafi lent á landi eða hvort einhver slys hafi orðið á fólki vegna þess.

Kína hefur tvisvar áður sætt gagn­rýni fyrir að leyfa braki úr eld­flaug að falla stjórn­laust til jarðar. Á síðasta ári sakaði banda­ríska geim­ferðar­stofnunin NASA yfir­völd í Peking um að „upp­fylla ekki mikilvæga öryggisstaðla þegar kemur að braki úr geimnum,“ eftir að hlutur af kín­verskri eld­flaug lenti í Ind­lands­hafi.

Þá skall fyrsta geim­stöð landsins, Tiangong-1, í Kyrra­hafið árið 2016 eftir að yfir­völd í Peking stað­festu að þeir höfðu misst stjórn á henni. Í maí 2020, fjórum árum síðar, hrapaði svo á­tján tonna eld­flaug stjórn­laust til jarðar.

Kína hefur einnig sætt mikilli gagn­rýni fyrir að hafa sent flug­skeyti til að tor­tíma einu af veður­gervi­tunglum sínum árið 2007.