Rannsóknahópur við Landspítalann og Háskóla Íslands hefur rannsakað kælisvefn síðustu tugttugu ár. Þórarinn Gíslason, prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir svefndeildar Landspítala, og Bryndís Benediktssdóttir, prófessor og læknir, leiða rannsóknina í samvinnu við teymi bandarískra vísindamanna við háskólasjúkrahúsið í Fíladelfíu. 

Nýverið hlaut þessi hópur 200 milljóna króna styrk frá bandarísku heilbrigðisstofnuninni (National Institute of Health) til nýrrar rannsóknar sem hefur vinnuheitið MOSA (metabolomics of obstructive sleep apnea). Rannsóknin felst í að meta hvort greina megi kæfisvefn með blóðsýni og hvort á sama hátt megi segja til um einkenni og fylgikvilla sjúkdómsins. Þetta kemur fram á vefsíðu Háskóla Íslands.

11 þúsund einstaklingar hér á landi glíma við kæfisvefn

250 einstaklingum á Íslandi verður boðið til þátttöku í rannsókninni, körlum og konum á aldrinum 18-90 ára sem hafa nýverið verið greind með kæfisvefn á meðalháu eða háu stigi. Um er að ræða grunnmat áður en meðferð við kæfisvefni hefst. Svefnrannsókn verður endurtekin hjá öllum þátttakendum með mun nákvæmari mælibúnaði en yfirleitt er notaður við greiningu kæfisvefns.  

Að minnsta kosti 11.000 manns hafa greinst með kæfisvefn á Íslandi og notar meirihluti þeirra svefnöndunartæki að staðaldri. Líklega eru fleiri kæfisvefnssjúklingar ógreindir en þeir sem hafa fengið greiningu að sögn Þórarins og biðlistar eftir því að komast í rannsókn eru langir.

Við núverandi aðstæður þarf að gera mælingu heila nótt og veitir sú niðurstaða samt sem áður stundum ófullkomnar upplýsingar. Vonast er til þess að í framtíðinni dugi það fjölmörgum sjúklingum að koma í einfalda blóðtöku til þess að meta kæfisvefn og líkur á fylgikvillum en einnig til að fylgja eftir meðferð. Að sögn Þórarins yrði það gjörbylting frá þeim aðstæðum sem eru í dag enda þótt hefðbundnar svefnrannsóknir þurfi áfram í einhverjum mæli.

Mikil samkeppni um styrki

Samkeppnin um styrki frá bandarísku heilbrigðisstofnuninni er mjög mikil að sögn Þórarins og segir hann hlutfall þeirra umsækjenda sem hljóti styrk sé innan við 5%.

„Styrkleiki okkar á Íslandi er orðspor sem m.a. byggist á góðri þátttöku Íslendinga og ekki síst vilja þátttakenda til eftirfylgni. Ekki spillir að Íslensk erfðagreining hefur í tvo áratugi verið leiðandi í heiminum í erfðarannsóknir og nýtur mikillar virðingar. Þá njótum við einnig hróðurs NOX Medical sem er leiðandi á heimsvísu í þróun svefngreiningarbúnaðar,“ segir Þórarinn.