Þeir sem komu að björgunar­að­gerðum í morgun eftir að bíll lenti í sjónum í Skötu­firði og voru í ná­vígi við þá sem voru í bílnum eru nú komnir í úr­vinnslu­sótt­kví. Þetta stað­festir Rögn­valdur Ólafs­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­vörnum, við Frétta­blaðið. Fólkið sem var í bílnum; þriggja manna fjöl­skylda, var ný­komið til landsins frá út­löndum og var á leið heim til sín.

„Þeir sem voru í nánum sam­skiptum eða snertingu við þau sem lentu í slysinu eru komnir í úr­vinnslu­sótt­kví,“ segir Rögn­valdur. „Þetta er sem sagt fjöl­skylda sem var að koma til landsins frá út­löndum seint í gær, eða í nótt, og var að keyra heim til sín.“

Ætti að koma niðurstaða í dag

Hann segir að niður­stöður úr sýna­töku þeirra við landa­mærin liggi ekki fyrir. Á meðan þeirra er beðið verði allir sem voru í ná­vígi við fólkið að vera í úr­vinnslu­sótt­kví. Rögn­valdur gerir þó ráð fyrir að niður­stöðurnar verði ljósar seinna í dag.

Reynist sýnin nei­kvæð losna björgunar­liðarnir úr sótt­kvínni en reynist sýnin já­kvæð þarf að skoða næstu skref.

Rögn­valdur hefur ekki ná­kvæma tölu á þeim sem eru nú í úr­vinnslu­sótt­kví eftir björgunar­að­gerðirnar. Hann segir þó að þeir séu ekki svo margir.

Einn þeirra þriggja sem voru í bílnum var fluttur á bráða­mót­töku með þyrlu Land­helgis­gæslunnar í dag. Ekki er vitað um líðan hans. Hinir tveir voru fluttir með annarri þyrlu á Land­spítalann við Hring­braut.