Þeir sem komu að björgunaraðgerðum í morgun eftir að bíll lenti í sjónum í Skötufirði og voru í návígi við þá sem voru í bílnum eru nú komnir í úrvinnslusóttkví. Þetta staðfestir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, við Fréttablaðið. Fólkið sem var í bílnum; þriggja manna fjölskylda, var nýkomið til landsins frá útlöndum og var á leið heim til sín.
„Þeir sem voru í nánum samskiptum eða snertingu við þau sem lentu í slysinu eru komnir í úrvinnslusóttkví,“ segir Rögnvaldur. „Þetta er sem sagt fjölskylda sem var að koma til landsins frá útlöndum seint í gær, eða í nótt, og var að keyra heim til sín.“
Ætti að koma niðurstaða í dag
Hann segir að niðurstöður úr sýnatöku þeirra við landamærin liggi ekki fyrir. Á meðan þeirra er beðið verði allir sem voru í návígi við fólkið að vera í úrvinnslusóttkví. Rögnvaldur gerir þó ráð fyrir að niðurstöðurnar verði ljósar seinna í dag.
Reynist sýnin neikvæð losna björgunarliðarnir úr sóttkvínni en reynist sýnin jákvæð þarf að skoða næstu skref.
Rögnvaldur hefur ekki nákvæma tölu á þeim sem eru nú í úrvinnslusóttkví eftir björgunaraðgerðirnar. Hann segir þó að þeir séu ekki svo margir.
Einn þeirra þriggja sem voru í bílnum var fluttur á bráðamóttöku með þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag. Ekki er vitað um líðan hans. Hinir tveir voru fluttir með annarri þyrlu á Landspítalann við Hringbraut.