Tak­markað skóla­starf verður í Réttar­holts­skóla, Granda­skóla, Voga­skóla og Hamra­skóla í næstu viku vegna verk­falls Eflingar. Gripið er til þessa að­gerða þar sem meiri­hluti skólanna er ræstur af fé­lags­mönnum Eflingar og því ekki hægt að við­halda hrein­lætis­stöðlum í skólunum með öðrum hætti.

Veltu­kerfi hófst í Granda­skóla og Réttar­holts­skóla í dag, en öll starf­semi Réttar­holts­skóla féll niður í gær vegna ó­þrifnaðar í skólanum.

Hluti barna í skóla á hverjum tíma

„Í þeim skólum þar sem allur skólinn, eða stór hluti hans, er ræstur af starfs­fólki Eflingar erum við að taka upp veltu­kerfi þannig hluti barnanna er í skólanum á hverjum tíma,“ segir Helgi Gríms­­­son, sviðs­­­stjóri skóla- og frí­­­stunda­­­sviðs Reykja­víkur­­­borgar í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Þessi við­bragðs­á­ætlun er þegar komin í gagnið í tveimur skólum og þarf að við­hafa í fjórum skólum frá og með næstu viku.“

Helgi Gríms­­­son, sviðs­­­stjóri skóla- og frí­­­stunda­­­sviðs Reykja­víkur­­­borgar, segir verkfall koma til með að hafa mikil áhrif á fjóra grunnskóla.
Fréttablaðið/Anton Brink

Blanda af stað­bundnum lotum og fjar­námi

Í Réttar­holts­skóla verður skóla­hald blanda af fjar­námi og stað­bundnum lotum þar sem að­eins einn ár­gangur verður í skólanum á hverjum tíma. „Skóla­stjórinn heldur á­kveðnum hluta skóla­starfsins opnum og bók­legar greinar verða kenndar að hluta til í fjar­námi.“

Nánari upp­lýsingar um skóla­hald ofan­greindra grunn­skóla verður sent frá við­komandi skóla­stjóra til for­eldra grunn­skóla­nema.

Lítil sem engin á­hrif

Fé­lags­menn Eflingar starfa í mis­miklum mæli í ellefu grunn­skólum í Reykja­vík. Í fjórum skólum er um að ræða hálft stöðu­gildi eða minna sem þýðir að að­eins lítill hluti skólans er ræstur af starfs­fólki Eflingar og hinn hlutinn af starfs­fólki úr öðrum stétta­fé­lögum.

„Í til­vikum þar sem að svæði sem við­komandi Eflingar­starfs­manns er lítið vegna lægra starfs­hlut­falla þá er starf­seminni hliðrað til innan­húss.“

Félagsmenn Eflingar er í verkfalli gegn Reykjavíkurborg.
Fréttablaðið/Anton Brink