Bændahöllin, eða Hótel Saga eins og hún er gjarnan nefnd í daglegu tali, var opnuð árið 1962 og er án efa eitt þekktasta hótelið í sögu íslenskrar ferðaþjónustu. Arkitektinn Pétur H. Ármannsson, sem vinnur nú ásamt fleirum að bók um arkitekt hótelsins, Halldór H. Jónsson, segir bygginguna vera hluta af þjóðarsögu 20. aldar.
„Menn höfðu misjafnar skoðanir á útliti hússins í bakgrunni aðalbyggingar Háskóla Íslands og stærð þess og hæð var umdeild á sínum tíma. En þessi bygging varð snemma hluti af þjóðarsögunni. Opnun Hótel Sögu markaði þáttaskil í ferðaþjónustu á Íslandi á sínum tíma. Þetta var fyrsta nútímalega hótelið í alþjóðlegum gæðaflokki sem var opnað hér landi, þremur áratugum á eftir Hótel Borg,“ segir hann.

Hótel Saga var um árabil miðstöð funda- og ráðstefnuhalds, skemmtanalífs og matargerðarlistar á Íslandi, sem sést glöggt á því hvaða sess hótelið skipar í þjóðarvitundinni. Hótel Saga og Grillið eiga sér fjölmargar birtingarmyndir í íslenskri menningarsögu og má þar einna helst nefna fræga senu í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar Englum alheimsins, eftir samnefndri skáldsögu Einars Más Guðmundssonar. Pétur segir hótelið hafa ótvírætt gildi í hönnunarsögunni.
„Arkitekt Bændahallarinnar, Halldór H. Jónsson, hannaði ekki bara bygginguna sjálfa heldur líka allar innréttingar hótelsins, valdi efni og áklæði, hannaði húsgögn og gólfteppi, lampa og fleira. Þannig hafa upphaflegar innréttingar Hótel Sögu ótvírætt gildi í hönnunarsögunni. Margar kynslóðir Íslendinga eiga dýrmætar minningar tengdar þessu húsi. Þar voru haldnar ráðstefnur og mikilvægir fundir, fínustu veislur bæjarins og landsfrægir tónlistarmenn spiluðu undir dansi í Súlnasalnum um árabil. Þetta er húsið sem fólk heimsótti til að halda upp á merk tímamót í lífi sínu. Þannig að það er ekkert alveg sama hvað um það verður.“
Margþætt starfsemi í húsinu
Pétur segir Bændahöllina hafa frá upphafi verið hannaða sem fjölnota hús og telur eðlilegast að þar yrði áfram margþætt starfsemi eins og var gert ráð fyrir frá upphafi, en auk hótels og verslana voru skrifstofur Bændasamtakanna og fleiri stofnana og fyrirtækja í húsinu. Engin föst starfsemi hefur verið í hótelhluta hússins frá 2020, en hluti þess var leigður undir skólastofur fyrir nemendur í Hagaskóla, sem þurftu frá honum að hverfa vegna myglu.
„Ég verð að segja að eftir að hótelið lokaði fyrir ári síðan sakna ég þess mikið. Það var nýbúið að opna þarna skemmtilegan veitingastað, Mími, sem var alveg frábær. Ég vona að það verði áfram margþætt starfsemi í húsinu, gisting og veitingarekstur í bland við annað, óháð því hvernig úr því spilast. Það er ágætt að menn hafi það í huga að þetta er stórmerk bygging og það þarf að fara varlega út í breytingar á henni,“ segir Pétur.

Hús þarf að vera lifandi
Uppbygging hússins er engu að síður mjög sveigjanleg og því auðvelt að laga ákveðna hluta þess að nýrri starfsemi. Að sögn Péturs er húsið ekki friðlýst og væri því ekkert til fyrirstöðu fyrir nýja eigendur að gera róttækar breytingar á innviðum þess.
„Það er kannski ekki aðalmálið hver á húsið eða rekur það, heldur bara hvaða hugmyndir menn eru með og hvernig mönnum tekst að nýta kosti hússins án þess að fórna gæðum þess. Hús þarf að vera lifandi og maður sér það að eftir að hótelið lokaði, þá er eins og hverfið þarna í kring sé hálfdautt. Eftir að hótelið lokaði kemur í ljós hvað starfsemin í húsinu hafði mikið gildi fyrir Háskólasvæðið og Melahverfið,“ segir Pétur og bætir við að mikil eftirsjá yrði að hótelinu ef því yrði alveg lokað.

Hvað verður um Hótel Sögu?
Nokkur fyrirtæki og stofnanir eru í dag með rekstur í Bændahöllinni, þar með talið Bændasamtökin, Pósturinn og Hið íslenska bókmenntafélag. Sá hluti hússins sem heyrði undir Hótel Sögu hefur þó staðið meira og minna tómur frá því rekstur hótelsins lagðist af í nóvember 2020. Ýmis áform hafa verið uppi um framtíð Bændahallarinnar og Bændasamtökin hafa verið í viðræðum við nokkra aðila um möguleg kaup á húsinu.
Í sumar var greint frá því að aðilar tengdir Hótel Óðinsvéum væru í viðræðum um kaup á húsinu til áframhaldandi hótelreksturs. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins runnu þær áætlanir út í sandinn, þegar í ljós kom að fara þyrfti út í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir til að halda áfram hótelrekstri.
Háskóli Íslands hefur einnig lýst yfir áhuga á því að kaupa Bændahöllina og koma þar upp stúdentagörðum eða flytja starfsemi menntasviðs háskólans þangað. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2022 er lagt til að fjármála- og efnahagsráðuneytið fái heimild til að skoða kaup á Hótel Sögu. Framtíð hótelsins er því enn óráðin, en ljóst þykir að ef áætlanir háskólans ganga eftir er áframhaldandi hótelrekstur í Bændahöllinni nokkuð ólíklegur.
Tímalína Bændahallarinnar
- 1941 – Búnaðarþing ályktar um byggingu bændahúss í Reykjavík.
- 1948 – Búnaðarfélagið fær lóð og byggingarleyfi við Hagatorg.
- 1956 – Fyrsta skóflustungan tekin að Bændahöllinni 11. júlí.
- 1962 – Hótel Saga er opnuð formlega.
- 1964 – Stjörnusalurinn, betur þekktur sem Grillið, opnar á 7. hæð hússins.
- 1985 – Sjö hæða viðbyggingu bætt við norðanvert húsið.
- 1991 – Samningur gerður við Búnaðarbankann um að Hótel Saga sjái um rekstur Hótel Íslands.
- 2018 – Hótelið opnað aftur eftir framkvæmdir.
- 2020 – Hótel Saga lokar eftir 58 ára starfsemi.