Hlutfall svokallaðra verndarmála, það er umsóknir um vernd frá einstaklingum sem hafa þegar hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki, er mun hærra hér á landi miðað við í Noregi.

Hlutfall verndarmála af umsóknum á Íslandi

  • 2019 | 20%
  • Frá 15. júní 2020 til ársloka 2020 | 70%
  • Fyrstu fimm mánuði ársins 2021 | 58%

Hlutfall verndarmála af umsóknum í Noregi

  • 2019 | 3,7%
  • 2020 | 4,5%

Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gunnara Braga Sveinssyni, þingmanni Miðflokksins, um lög og reglur er varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Svarið birtist á vef Alþingis í dag.

Gunnar Bragi vildi vita helsta muninn á lögum og reglum annars vegar á Íslandi og hins vegar í Noregi og Danmörku varðandi málsmeðferð, málsmeðferðartíma, fresti á áhrifum ákvarðana og áfrýjanir mála umsækjenda um alþjóðlega vernd.

„Almennt séð telur ráðuneytið þó að einn helsti og mest áberandi munur á milli Íslands annars vegar og annarra Evrópuríkja hins vegar, þar á meðal Danmerkur og Noregs, sé sá að hlutfall svokallaðra verndarmála er verulega hærra hér á landi,“ segir í svari dómsmálaráðherra.

Vilja ekki fara til Grikklands

Ráðherra segir ástæðuna fyrir þessari miklu ásókn vera í fyrsta lagi vegna laga um útlendinga sem leggur þær skyldur á stjórnvöld að taka mál einstaklinga, sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í öðru ríki, til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur náin tengsl við landið. Í öðru lagi fái mörg verndarmál efnismeðferð hér á landi þar sem stjórnvöld ná ekki að afgreiða og framkvæma ákvarðanir innan lögbundins frests. Samkvæmt lögum ber stjórnvöldum að taka til meðferðar Dyflinnar- og verndarmál ef meira en 12 mánuðir eru liðnir frá því að sótt var um alþjóðlega vernd. Sama gildir ef 10 mánuðir eru liðnir frá umsókn ef um er að ræða barn.

Um 70 prósent einstaklinga sem sóttu um vernd á Íslandi frá 15. júní 2020 til ársloka höfðu þegar hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki. Stór hluti flóttamanna hlýtur vernd á Grikklandi en líkt og fjölmiðlar hafa greint frá myndu sumir flóttamenn frekar deyja á Íslandi en að snúa aftur til Grikklands. Af lýsingum flóttamanna að dæma er staðan lífshættuleg í búðum á Grikklandi.

Hlutfall verndarmála var tæp 20 prósent af umsóknum árið 2019, en það ár var Ísland samt sem áður með hlutfallslega flest slík mál miðað við önnur Evrópuríki að sögn ráðherra.